„Ég stóð þarna í áfalli“

Harvey Weinstein sést hér koma í réttarsalinn fyrr í vikunni.
Harvey Weinstein sést hér koma í réttarsalinn fyrr í vikunni. AFP

Fyrirsæta, sem er sjötta og um leið síðasta konan sem ber vitni í réttarhöldunum yfir Harvey Weinstein, lýsti fyrir rétti í gær hvernig hann beitti hana kynferðisofbeldi á salerni hótels árið 2013. Fjallað er um réttarhöldin yfir kvikmyndaframleiðandanum fyrrverandi á vef Guardian. 

Þar segir að enn og aftur hafi þeir sem eru viðstaddir réttarhöldin í New York hlýtt á hvernig valdamikill kvikmyndaframleiðandi hafi þvingað unga og hæfileikaríka leikkonu til kynmaka. Nú var brotið framið á salerni hótelsvítu í Los Angeles.

Lauren Young, sem er þrítug fyrirsæta frá Pennsylvaníu, þurfti að rifja upp fyrir dómi það sem gerðist á Montage-hótelinu í Beverly Hills 19. febrúar árið 2013. Hvernig vonin um að sýna Weinstein handrit sem hún vann að snerist í að verða fyrir kynferðisofbeldi af hálfu mannsins sem hún treysti. 

Þau hittust í anddyri hótelsins og ræddu um raunveruleikaþáttaröðina America’s Next Top Model sem Weinstein lagði til að Young tæki þátt í. Þau ræddu áfram um þættina og síðan bauð Weinstein Young og annarri konu upp á herbergi sitt á hótelinu. Young lýsti því fyrir kviðdómi hvernig hún hafi fylgt Weinstein eftir og hin konan hafi verið síðust í röðinni inn í svítuna, í gegnum forstofuna, inn gang og inn á baðherbergi. Skyndilega breyttist allt. Þegar hún kom inn á baðherbergið sá hún í speglinum að hin konan hafði lokað hurðinni á eftir henni — lokað Young inni á baðherberginu með Weinstein.

Weinstein kveikti á sturtunni og hóf að afklæðast. „Ég stóð þarna í áfalli. Hann var á þessum tímapunkti allsnakinn. Hann kom í átt að mér þegar ég færði mig nær hurðinni. Með nakinn líkmann beint fyrir framan mig. Mér fannst ég vera í sjálfheldu.“

Young greindi síðan kviðdóminum frá því hvernig Weinstein ýtti henni að vaskinum, renndi niður og klæddi hana úr kjólnum sem hún var í. Síðan hafi hann þuklað á brjóstum hennar á sama tíma og hann fróaði sér. „Allan tímann sagði ég: Nei, nei, nei. Að ég ætti kærasta og ég hefði ekki áhuga. Hann hélt spjallinu áfram: Þetta er það sem allar leikkonur gera til að komast áfram.“ 

Kynfæri Weinsteins áfram til umræðu

Að sögn Young hélt Weinstein áfram að fróa sér þangað til hann fékk það í handklæði. Saksóknarar báðu hana um að rifja upp hvort hún myndi eitthvað eftir líkamsbyggingu Weinsteins. Hún sagði að kynfæri hans væru einkennileg. Því það væri eins og þau hefðu verið skorin af og síðan saumuð á að nýju. Ekki hefðbundin ör eftir umskurð. Ekki væri hægt að sjá að hann væri með eistu í pungnum. 

Eftir að Young bar vitni var hún spurð út í atburði kvöldsins af verjanda Weinsteins, Damon Cheronis. Verjandinn dró fram í réttarsalnum hvíta kjólinn sem hún hafði verið í þetta kvöld fyrir sjö árum og aldrei farið í aftur.

Cheronis þrýsti á Young að upplýsa um hvers vegna hún hafi fyrst fundið kjólinn aftur fyrir þremur dögum. Hún svaraði því til að hann hefði verið í kassa sem hún hafði skilið eftir í Los Angeles þegar hún flutti. Saksóknarar ætla að rannsaka kjólinn og athuga hvort á honum finnist lífsýni úr Weinstein.

mbl.is