Ákærður fyrir að nauðga barni í sendiráði Bandaríkjanna

AFP

Indverji hefur verið ákærður fyrir að hafa nauðgað fimm ára gamalli stúlku í húsakynnum bandaríska sendiráðsins í Nýju-Delí.  

Maðurinn, sem er 25 ára gamall, var handtekinn í sendiráðinu á sunnudag, daginn eftir að hafa framið ódæðið í húsakynnum starfsfólks sendiráðsins. Að sögn lögreglu staðfestir læknisrannsókn að barninu hafi verið nauðgað. Maðurinn er ákærður fyrir að hafa nauðgað barni og er heimilt að dæma hann til dauða verði hann fundinn sekur. 

Talsmaður sendiráðsins segir að þetta séu skelfilegar fréttir og að þegar málið hafi komið upp um helgina hafi starfsfólk sendiráðsins tilkynnt atvikið til lögreglu og komið barninu undir læknishendur. Sendiráðið standi af heilum hug með barninu og fjölskyldu þess.

mbl.is