Heppni að vera í fríi þegar veiran breiddist út

Hildur við kennslu.
Hildur við kennslu. Ljósmynd/Aðsend

Hildur Hanna Ingólfsdóttir starfar sem kennari við leikskóla í Hangzhou í Kína. Skömmu áður en kínverska nýárið gekk í garð fór Hildur í frí til Filippseyja, en vegna kórónuveirunnar hefur hún ekki komist til baka. 

Hildur en nú stödd á Íslandi og segir óvíst hvenær hún komist aftur til Kína. Þangað til sé stefnt að því að hún kenni börnunum á netinu. 

„Ég átti flug til Hong Kong sem var aflýst daginn áður en ég átti að fara. Ég hefði líklegast getað komið mér einhvern veginn en yfirmaðurinn minn sagði mér að koma ekki, það væri bara ekki óhætt. Það eru rosalega margir frá Wuhan sem búa í Hangzhou þar sem ég bý,“ segir Hildur í samtali við mbl.is, en kórónuveiran greindist fyrst í borginni Wuhan undir lok síðasta árs. 

Fastir heima og komast ekkert

Hildur segir að kennslu hafi verið frestað tímabundið vegna faraldursins. 

„Kennsla átti að byrja í gær, 7. febrúar, en svo fékk ég skilaboð um að hún ætti að byrja 17. febrúar. Svo í fyrradag fékk ég aftur skilaboð um að kennslu væri frestað enn meira, það er stefnt að því að hún hefjist í mars en við verðum bara að sjá til,“ segir Hildur og bætir við að samstarfsfélagar hennar í Kína komist ekki út úr húsi. 

Hildur ásamt samstarfsfélögum sínum.
Hildur ásamt samstarfsfélögum sínum. Ljósmynd/Aðsend

„Það eru margir sem ég þekki sem eru bara fastir heima og geta ekki gert neitt,“ segir Hildur. 

Hildur segist vonast til þess að komast aftur til Kína í næsta mánuði, en hana gruni að biðin verði lengri. 

„Ég var ekkert hrædd við veiruna sjálfa þannig, ég er heilbrigð með gott ónæmiskerfi, þó svo að maður viti náttúrulega ekkert með þennan fréttaflutning sem kemur þaðan. En það sem ég var aðallega hrædd við og hef heyrt frá samstarfsfélögum mínum er að festast bara. Það eru bara öryggisverðir við blokkirnar og einn úr hverri fjölskyldu má fara út á tveggja daga fresti að kaupa nauðsynjar. Þeir sem ég er að vinna með eru bara fastir inni í íbúðunum sínum og hafa ekki talað við sálu í meira en tvær vikur. Nánast allur matur selst strax upp og fólk er að hamstra, það fást ekki grímur og þá máttu ekki fara út,“ segir Hildur um ástandið. 

Hildur býr ein í Kína og segist fegin að vera á Íslandi í faðmi fjölskyldunnar á meðan staðan er svona. 

„Það mætti enginn koma í heimsókn eða neitt. Ég væri bara föst ein í einhverri pínulítilli íbúð. Ég var mjög heppin að vera bara á Filippseyjum þegar þetta varð, þetta gerðist allt svo hratt.“

mbl.is