Barnshafandi hjúkrunarfræðingur vekur reiði í Kína

Zhao Yu er sögð vera notuð sem vopn í áróðursherferð …
Zhao Yu er sögð vera notuð sem vopn í áróðursherferð stjórnvalda. Ljósmynd/CCTV

Myndskeið sem kínverska ríkissjónvarpsstöðin CCTV birti af barnshafandi hjúkrunarfræðingi sinna sjúklingum sem eru smitaðir af kórónuveirunni COVID-19 hefur gert marga Kínverja öskureiða.

Myndskeiðið átti að draga upp mynd af hetjulund kínverskra heilbrigðisstarfsmanna en þess í stað eru kínversk yfirvöld nú gagnrýnd harðlega fyrir að láta ófríska konu vinna í óöruggum aðstæðum.

BBC greinir frá.

Komin níu mánuði á leið

Hjúkrunarfræðingurinn, Zhao Yu, er komin níu mánuði á leið og vinnur á gjörgæsludeild herspítalans í Wuhan-borg. Í myndskeiðinu sést hún ganga um spítalann og sinna sjúklingum klædd í sóttvarnagalla. Hún tekur sýni úr sjúklingi sem er í kjölfarið sendur á lokaða deild. Í myndskeiðinu má heyra sama sjúkling vara hana við því að vinna í svona hættulegum aðstæðum.

Yu viðurkennir að fjölskylda hennar hafi áhyggjur af henni og vilji að hún hætti að vinna en hún er ákveðin í því að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn veirunni. Myndskeiðið átti að lýsa og vera einkennandi fyrir fórnfýsi og óeigingirni kínverskra heilbrigðisstarfsmanna til að sameina kínversku þjóðina en hefur haft þveröfug áhrif.

Kínverskir samfélagsmiðlar hafa logað eftir að myndskeiðið var birt og eru stjórnvöld sökuð um að nota Yu sem vopn í áróðursherferð. „Getum við hætt þessum áróðri? Hver tók þá ákvörðun að þetta væri í lagi? Ófrískar konur eiga ekki að vera í broddi fylkingar í þessari baráttu,“ sagði í einni færslu.

Raka hárið af kvenkyns heilbrigðisstarfsfólki

Þá hefur annað myndskeið frá fjölmiðli í ríkiseigu sömuleiðis valdið miklum titringi í Kína en það sýnir hjúkrunarfræðinga gráta á meðan hár þeirra er rakað af.

Í myndskeiðinu er ástæðan sögð vera sú að það auðveldi þeim að setja á sig hlífðar- og öryggisbúnað. Það eru þó ekki allir sem kaupa þá skýringu og spyrja sig hvort að það hefði ekki dugað að klippa hár þeirra stutt í stað þess að raka það allt af. Þá spyrja margir af hverju hár karlkyns heilbrigðisstarfsmanna sé ekki rakað af þeim.

Fólk kallar eftir því að framlag kvenna í baráttunni sé metið að verðleikum undir myllumerkinu #SeeingFemaleWorker.

Margir eru furðulostnir yfir því að hár hjúkrunarfræðinga sé rakað …
Margir eru furðulostnir yfir því að hár hjúkrunarfræðinga sé rakað af þeim. Ljósmynd/WEIBO
mbl.is

Kórónuveiran

31. mars 2020 kl. 13:07
1135
hafa
smitast
173
hafa
náð sér
36
liggja á
spítala
2
eru
látnir