Skar tvo menn á háls í léttlest

Jeremy Joseph Christian við dómsuppsögu á föstudag.
Jeremy Joseph Christian við dómsuppsögu á föstudag. AFP

Jeremy Joseph Christian var í héraðsdómi Multhomah-sýslu í Portland í Oregon í Bandaríkjunum á föstudag fundinn sekur um tólf ákæruliði, þar af tvo vegna morða sem hann framdi í lest í Portland í maí 2017. 

Málsatvik voru þannig að stuttu eftir að Christian steig um borð í léttlest í Portland hóf hann að áreita tvær ungar bandarískar konur af afrískum uppruna, en önnur þeirra var með hijab-slæðu á höfði. 

Walio Mohamed, tvítugur sómalskur innflytjandi sem Christian áreitti, gefur skýrslu …
Walio Mohamed, tvítugur sómalskur innflytjandi sem Christian áreitti, gefur skýrslu fyrir dómi. AFP

Lét hann rasískum fúkyrðum rigna yfir konurnar og sagði m.a.: „Farið aftur til Sádi-Arabíu“, „Borgið skatta“ og „Farið heim. Við þurfum bandarískt hér.“

Þegar tveir menn skárust í leikinn, hinn 53 ára Ricky Best og hinn 23 ára Taliesin Myrddin Namkai-Meche, dró Christian upp hníf og skar báða á háls, að því er CNN greinir frá. Þá var þriðji maðurinn, Micah Fletcher, stunginn í hálsinn en lifði af.

Réðst á fólk kvöldið áður

Auk þess að vera sakfelldur fyrir tvö manndráp og tilraun til þess þriðja var Christian m.a. sakfelldur fyrir hatursglæpi gegn konunum tveimur, að því er kemur fram á vefsíðu The Oregonian

Demetria Hester, sem Christian hafði ráðist á kvöldið áður en …
Demetria Hester, sem Christian hafði ráðist á kvöldið áður en hann framdi voðaverkin, ræðir við fjölmiðla eftir dómsuppsögu. AFP

Þá var hann einnig fundinn sekur fyrir að hafa kvöldið áður ráðist á bandaríska konu af afrískum uppruna, Demetriu Hester, og sagði hún fyrir dómi að Christian hefði öskrað „að hann væri nasisti og að hann hataði alla múslima, svarta og gyðinga“. Hún hafi beðið hann að hætta og þá hafi hann fleygt hálffullri orkudrykkjarflösku í hana, og slasaðist hún á auga. Otaði hann þá hnífi að öðrum manni í lestinni áður en hann strunsaði út.

Dómur þar vestra mun byrja að ákvarða refsingu Christians á þriðjudag.

Christian er sagður hafa sýnt litla sem enga eftirsjá við …
Christian er sagður hafa sýnt litla sem enga eftirsjá við meðferð málsins. Kviðdómur byrjar að ræða refsingu hans á þriðjudag. AFP

Fyrir neðan má sjá myndband af því þegar dómur er kveðinn upp yfir Christian.

mbl.is