Finnsk listakona ögrar Norðmönnum

Finnska listakonan Iiu Susiraja teflir líkama sínum fram sem burðarás …
Finnska listakonan Iiu Susiraja teflir líkama sínum fram sem burðarás ljósmyndasýningar sinnar og kollvarpar þar ýmsum viðteknum gildum um birtingarform líkamans. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa eftir að sýning hennar opnaði í Kristiansand í Noregi. Ljósmynd/Iiu Susiraja

Norðmenn í þyngri kantinum hafa undanfarna daga brugðist ókvæða við sýningu finnsku samtímalistakonunnar Iiu Susiraja, Dry Joy, sem nú stendur yfir í Sørlandets Kunstmuseum í Kristiansand. Um er að ræða ljósmyndasýningu þar sem Susiraja notar eigin líkama sem viðfangsefni en listakonunni finnsku er allvel í skinn komið.

„Ögrandi sjálfsmyndir Iiu Susiraja brjóta allar reglur,“ segir í kynningu safnsins sjálfs á sýningunni. „Hún leikur sér með mat, notar hversdagsleg áhöld á nýstárlegan hátt og varpar fram spurningum um viðtekin fegurðargildi. Í verkum hennar mætast kvenleiki og mannlegar aðstæður í hlýju, kímnigáfu og beinhörðum heiðarleika.

Susiraja notar hversdagsleg áhöld á nýstárlegan hátt og varpar fram …
Susiraja notar hversdagsleg áhöld á nýstárlegan hátt og varpar fram spurningum um viðtekin fegurðargildi, segir meðal annars í umfjöllun Sørlandets Kunstmuseum um sýninguna Dry Joy. Ljósmynd/Iiu Susiraja

Norska ríkisútvarpið NRK fjallaði um sýningu Susiraja um helgina og greindi þar frá viðbrögðum Norðmanna yfir kjörþyngd, sem ekki var skemmt. „Sem manneskju í yfirþyngd þykir mér þetta sorglegt, ögrandi og fúlt. Listamaðurinn sýnir offitu í skelfilegu ljósi án þess að þar sé nokkuð jákvætt að sjá,“ sagði Heidi Rosander, bloggari og samfélagsrýnir, við NRK og tóku fleiri í sama streng.

Kærir sig kollótta um mörkin

Mari-Mette Graff, talskona Landssamtaka fólks í yfirþyngd (n. Landsforeningen for overvektige), er hins vegar stórhrifin og lá ekki á skoðun sinni við NRK: „Listamaðurinn kærir sig kollóttan um hvar mörkin liggja í sýningu á líkamanum og fjölbreytileika hans,“ sagði Graff og bætti því við að Susiraja þyrði að sýna möguleikana sem fælust í miklum líkama. „Hún neitar að fela líkamann inni í skáp, en kastar honum fram og skorar á samfélagið,“ sagði hún einnig.

Mona Pahle Bjerke, listagagnrýnandi NRK, skrifar gagnrýni um Dry Joy og segir þar að Susiraja, sem er 44 ára gömul og kemur frá Turku í Finnlandi, hafi stimplað sig inn í hóp athyglisverðustu samtímalistamanna Finnlands með sérstökum ljósmyndaverkum sínum og myndskeiðum.

Bjerke stillir Finnanum upp við hlið hinnar norsku Lene Marie Fossen sem segja má að sé á hinum enda skalans, en Fossen gerir lystarstol sitt að andlagi sinnar listsköpunar og birtist áhorfendum sínum svo grannvaxin og beinaber sem mest má vera.

Norska listakonan Lene Marie Fossen notar líkama sinn einnig í …
Norska listakonan Lene Marie Fossen notar líkama sinn einnig í listsköpun sinni. „Sá magri ber dauðann nánast utan á sér og birtist brotgjarn sem gler,“ segir Mona Pahle Bjerke, listrýnir NRK, um muninn á nálgun þeirra Iiu Susiraja. Ljósmynd/Lene Marie Fossen

„Sá magri ber dauðann nánast utan á sér og birtist brotgjarn sem gler,“ skrifar rýnirinn, „á meðan hinn digri stendur fyrir allt annan þéttleika, við hann er eitthvað notalegt og ósvikið sem vekur okkur ef til vill ekki óhug á sama hátt og hitt, en heillar okkur líka kannski minna.“

Líkaminn sem hamlandi þáttur

Bjerke telur þó margt líkt með listakonunum Susiraja og Fossen, svo sem að í tilfelli beggja er það líkami þeirra sem er miðpunktur listsköpunarinnar og ber hana uppi. „Það snýst um hvernig líkaminn hamlar – gerir það að verkum að við föllum ekki að einhverjum staðli.“

Bjerke segir listakonuna birta mynd af sér í rúmi og …
Bjerke segir listakonuna birta mynd af sér í rúmi og kollvarpa með því væntingunni um grannan og spengilegan líkama við sömu aðstæður. Ljósmynd/Iiu Susiraja

Hún segir Susiraja beita kímnigáfu með sárum undirtónum þar sem hún snúi hinni dæmigerðu sjálfuljósmynd (e. selfie) við, mynd sem oftar en ekki sé ætlað að leiða fram einhvers konar fegurð eða jákvætt útlitsgildi. „Hún birtir til dæmis mynd af sér í rúmi. Þar notfærir hún sér meðvitað þær væntingar sem almennt fylgja slíkum myndum: Hún gefur í skyn að við reiknum með grönnum og spengilegum líkama.“

Bjerke segist sérstaklega hrifin af þeirri mynd Susiraja sem sýni breiðvaxin læri Finnans með álímdum glærum plastpokum sem geyma háhælaskó. „Það sker mann í hjartað að hún lími þessi tákn fegurðar og kvenleika utan á líkama sinn þar sem hún kæmi fótunum aldrei ofan í skó af þessu tagi. Þarna sýnir hún líkamlegan fegurðarmælikvarða sem margir eru útilokaðir frá,“ skrifar hún.

Myndin sem greip gagnrýnandann Bjerke sérstaklega. „Það sker mann í …
Myndin sem greip gagnrýnandann Bjerke sérstaklega. „Það sker mann í hjartað að hún lími þessi tákn fegurðar og kvenleika utan á líkama sinn.“ Ljósmynd/Iiu Susiraja

Sársauki, frávik eða harmleikur

Listrýni Bjerke lýkur á þeim nótum að Susiraja dragi vissulega fram þýðingarmikið þema í verkum sínum. Spurningin sé hins vegar hvort hugmyndin sé nægilega burðug til að standast tímans tönn ætli listakonan sér að halda áfram á sömu braut.

„Sú tilfinning sem situr eftir hjá mér er að sjálfsmyndin neyðist til að grípa til öfganna til að sjást í þeim myndaflaumi nútímasamfélagsins sem hefur ofurörvað okkar sjónræna svið. Til að mynd teljist athygli verð þurfi sársauki, frávik eða hugsanlegur harmleikur að vera drifkraftur hennar,“ eru lokaorðin.

Heimasíða Finnsk-norsku menningarstofnunarinnar

mbl.is