Fjögur dauðsföll á Ítalíu

Fjórir hafa látist úr kórónaveirunni á Ítalíu en yfir 150 manns hafa greinst með veiruna í Lombardia- og Veneto-héruðum á Norður-Ítalíu.

Þrír þeirra hafa látist í Lombardia en þar eru nokkur þorp í einangrun vegna veirunnar. Alls eru ellefu þorp, þar af tíu í Lombardia, í einangrun og er íbúum þorpanna, alls um 50 þúsund manns, meinað að yfirgefa þorpin. Jafnframt hefur öllum samkomum verið aflýst, svo sem íþróttaviðburðum og skemmtunum, auk þess sem barir, veitingastaðir og skemmtistaðir eru lokaðir. 

Þetta hefur haft mikil áhrif á viðburði eins og tískuvikuna í Mílanó og kjötkveðjuhátíðina í Feneyjum. Jafnframt hefur óperusýningum verið aflýst á La Scala. 

Flest smitin á Ítalíu eru í Lombardia og eru þau rakin til 38 ára gamals mann sem ítölsk yfirvöld nefna sjúkling númer eitt. Unnið er að því að rekja nánast hverja einustu hreyfingu mannsins undanfarnar vikur. Hvar hann svaf, borðaði og gekk í þeirri von að komast í samband við alla þá sem hann var í snertingu við. 

mbl.is