Óttast að kórónuveiran verði að heimsfaraldri

Hæsta viðvörunarstigi hefur verið lýst yfir í Suður-Kóreu þar sem …
Hæsta viðvörunarstigi hefur verið lýst yfir í Suður-Kóreu þar sem fjölgun smita hefur þrefaldast. AFP

Vaxandi áhyggjur eru af því að kórónuveirufaraldurinn COVID-19 kunni að verða að heimsfaraldri, en veiran er enn skilgreind sem faraldur með mörgum tilfellakjörnum. Farið er að tala um heimsfaraldur þegar veira er orðin sjálfbær í dreifingu um heiminn og ekki eru bein tengsl við upprunasvæðið. BBC greinir frá.

Enn sem komið er hafa langflest tilfellin komið upp í Kína þar sem 77 þúsund smit hafa greinst, en alls um 2.600 manns hafa látist úr veirunni. Kínverjar vilja meina að þeir hafi náð tökum á útbreiðslu veirunnar og dregið hafi úr fjölgun nýsmita þar í landi.

Fjölgun tilfella fyrir utan Kína er hins vegar mikið áhyggjuefni en í morgun var tilkynnt um fjögur dauðsföll af völdum veirunnar á Ítalíu. Þá hefur hæsta viðvörunarstigi verið lýst yfir í Suður-Kóreu þar sem tilfellin þrefölduðust á tveimur sólarhringum og sjö hafa látist. Tólf eru einnig sagðir látnir úr veirunni í Íran. Einhverjir fréttamiðlar þar í landi vilja þó meina að dánartalan sé hærri. Í þessum löndum virðast vera að koma upp tifelli þar sem engin tenging er við Kína, sem getur þýtt að við séum á barmi heimsfaraldurs miðað við skilgreininguna.

Þá var í dag tilkynnt um fyrstu tilfellin í Afganistan, Kúveit og Bahrein. Alls hafa um 1.200 smit verið staðfest fyrir utan Kína í 26 löndum og yfir 20 hafa látist.

Glugginn til að ná tökum á veirunni virðist vera að …
Glugginn til að ná tökum á veirunni virðist vera að lokast. AFP

Dánartíðni kórónuveirunnar virðist þó ekki vera há miðað við skráð smit og dauðsföll, en hún er talin vera um 1 til 2 prósent. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO fer hins vegar varlega í að fullyrða um dánartíðnina og segir í raun ekki alveg vitað með vissu hve há hún er.

Tedros Adhanom Ghebreysus, yfirmaður WHO, varar við því að glugginn til að ná tökum á veirunni sé að lokast. Paul Hunter, prófessor í sóttvörnum við Háskólann í East Anglia í Bretlandi, tekur undir með Ghebreysus. Hann segir fjölgun tilfella fyrir utan Kína verulegt áhyggjuefni. Möguleikinn á því að koma í veg fyrir heimsfaraldur hafi minnkað mjög mikið síðasta sólarhringinn.

Frétt BBC

Frétt The Guardian

mbl.is