Gestir mega ferðast um hótelið að vild

Lögregla stendur vörð um hótelið og gætir þess að enginn …
Lögregla stendur vörð um hótelið og gætir þess að enginn fari þar inn eða út. Ljósmynd/Jón Sigurðsson

Gestir á H10 Costa Adeje Palace hótelinu á Tenerife fengu miða undir hurðina á herbergjum sínum þar sem þeim var gerð grein fyrir því að af heilbrigðisástæðum hefði hótelinu verið lokað, en staðfest smit af kórónuveiru COVID-19 greindist í gesti hótelsins í gær. Á miðanum stóð að fólk ætti að halda kyrru fyrir í herbergjum sínum þar til frekari upplýsingar fengjust frá heilbrigðisyfirvöldum. BBC greinir frá en gestur á hótelinu birti færslu um málið á Facebook-síðu sinni. Mynd af miðanum var einnig birt á Twitter.

Annar gestur sagði svo í samtali við BBC að þessum ströngu skilyrðum hefði verið aflétt og að fólk gæti nú ferðast um hótelið að vild. Allir gestirnir sæta hins vegar sóttkví og mega ekki yfirgefa hótelið, þar á meðal sjö Íslendingar á vegum ferðaskrifstofunnar Vita. Lögregla stendur vörð við inngang hótelsins og gætir þess að enginn fari þar út eða inn.

Þriðji gesturinn, Christopher Betts, sagði í samtali við Reuters fréttastofuna að hann sæi lögreglumenn og um 50 starfsmenn hótelsins standa fyrir utan hótelið. Hann sagði gesti ekki hafa fengið neinar frekari upplýsingar og hefðu ekki verið prófaðir fyrir kórónuveirunni.

Það var ítalskur karlmaður, læknir frá Lombardy héraði á Ítalíu, sem greindist með kórónuveiruna í gær. Hann hafði dvalið á hótelinu í einhverja daga ásamt konu sinni. Hann er nú í einangrun á háskólasjúkrahúsinu Nuestra Senora de Candelaria á Tenerife. Hann mun á morgun gangast undir annað próf til að staðfesta að hann sé smitaður af veirunni. En verklagsreglur kveða á um að aðra staðfestingu.

Tilfellum kórónuveirunnar hefur fjölgað mikið síðustu daga á Ítalíu en 231 smit hefur verið staðfest þar í landi og sjö hafa lástist.

mbl.is

Kórónuveiran

7. apríl 2020 kl. 13:13
1586
hafa
smitast
559
hafa
náð sér
39
liggja á
spítala
6
eru
látnir