Leggja niður skólahald vegna veirunnar

Hér sést Abe kynna beiðni sína.
Hér sést Abe kynna beiðni sína. AFP

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, mæltist í dag til þess að öllum grunn- og framhaldsskólum landsins yrði lokað fram í lok mars vegna kórónuveirunnar COVID-19. Vill Abe með þessu hefta útbreiðslu veirunnar í Japan. 

Beiðni Abe kom mörgum á óvart. Þrátt fyrir að skólum sé ekki skylt að fylgja henni er búist við því að þeir verði við beiðni Abe. Lokanir skólanna munu hafa áhrif á 12,8 milljónir nemenda í 34.800 skólum. Fréttastofa AP greinir frá þessu.

„Næsta vika og jafnvel þar næsta vika eru virkilega mikilvægar. Beiðni mín er lögð fram í þeim tilgangi að setja heilsu og öryggi barna í forgrunn og til þess að grípa til varúðarráðstafana til þess að forðast mögulega útbreiðslu veirunnar í Japan,“ sagði Abe þegar hann tilkynnti um beiðni sína. 

Missa líklega af lokaprófum og útskriftum

910 manns hafa nú þegar smitast í Japan og átta týnt lífi vegna veirunnar. 

Skólaárinu í Japan lýkur í mars og verða áhrif lokana því mikil enda takmarkaður tími eftir til þess að senda nemendur í lokapróf eða útskrifa þá úr skólum. Abe hefur mælst til þess að lokaprófum og útskriftum verði haldið í algjöru lágmarki og gripið verði til varúðarráðstafana vegna þeirra. 

Japanska ríkisstjórnin hefur sömuleiðis beðið fyrirtæki sem bjóða starfsfólki sínu upp á sveigjanlega vinnutíma að leyfa starfsfólki að vinna að heiman. 

mbl.is

Kórónuveiran

31. mars 2020 kl. 13:07
1135
hafa
smitast
173
hafa
náð sér
36
liggja á
spítala
2
eru
látnir