Náði sér af veirunni en glímir við eftirköst

Julie átti erfitt með andardrátt og gat varla gengið frá …
Julie átti erfitt með andardrátt og gat varla gengið frá rúminu inn á baðherbergi. Ljósmynd/Skjáskot af vef BBC

Hin 53 ára Julie frá Singapúr er ein þeirra sem hafa fengið kórónuveiruna og náð sér að fullu að mati lækna, þó að hún sjálf finni enn fyrir eftirköstum, mánuði eftir að hún greindist. BBC birti viðtal við Julie þar sem hún lýsir einkennum veirunnar, dvölinni í einangrun og eftirköstunum sem hún glímir við.

„Þann 3. febrúar fékk ég hita á bilinu 38 – 38,5 stig, tók tvær panódíl og fannst ég þokkalega hress, en var samt mjög þreytt og man að ég svaf allan daginn. Svo lækkaði hitinn og restina af vikunni fannst mér ég vera hress. Ég hvorki hóstaði né hnerraði.“ Þannig lýsir Julie fyrstu einkennum kórónuveirunnar, en á þeim tímapunkti vissi hún ekki hvað hrjáði hana. Þann 7. febrúar vaknaði hún svo upp um klukkan þrjú um nótt við að herbergið hennar virtist hringsnúast. Í kjölfarið leitaði hún til læknis, var greind með kórónuveiruna daginn eftir og send strax í einangrun.

„Þetta var bara herbergi með fjórum veggjum og hurð. Ég fékk mat afhentan í gegnum sérstakt öryggishólf, ásamt lyfjum, hreinum fötum og handklæðum. Ég var með símann og gat hringt myndsímtöl og sent skilaboð, en ég mátti ekki hafa nein bein samskipti við fólk. Mig langaði næstum að banka í vegginn og reyna að ná sambandi við sjúklinginn í næsta herbergi, bara til að eiga einhver samskipti við aðra manneskju,“ segir Julie um einangrunarvistina og hvernig henni leið.

Átti erfitt með andardrátt og gang

„Þegar ég fór í gegnum erfiðasta hluta veikindanna fann ég fyrir miklum einkennum frá öndunarfærum og átti erfitt með að anda. Það var eins og lungun væru á yfirsnúningi og þyrftu að erfiða mikið. Venjulega er maður ekkert meðvitaður um hvern andardrátt en þarna var ég það. Ég átti mjög erfitt með að komast úr rúminu mínu inn á baðherbergi sem var bara í fimm metra fjarlægð.“

Julie segist ekki vita hver langtímaáhrif veirunnar verða, enda lítið vitað um veiruna og hvernig hún hagar sér. „Ég á í dag enn þá erfitt með að ganga í langan tíma af því ég verð mjög andstutt og finnst ég þurfa að setjast niður og hvíla mig. Ég hef aldrei upplifað slíkt áður.“

Julie var útskrifuð úr einangrun níu dögum eftir að hún greindist með veiruna og læknar telja hana hafa náð sér að fullu.

Um 90 þúsund manns hafa nú greinst með kórónuveiruna í tæplega 80 löndum og yfir 3.000 hafa látist. Á Íslandi hafa 9 manns greinst með veiruna og eru þeir allir í einangrun heima hjá sér. Þá eru tæplega 300 manns í sóttkví.

mbl.is

Kórónuveiran

9. apríl 2020 kl. 13:10
1648
hafa
smitast
688
hafa
náð sér
11
liggja á
spítala
6
eru
látnir