Strangt samkomubann tekur gildi í Danmörku

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. AFP

Allar samkomur 10 manna eða fleiri verða óheimilar í Danmörku frá og með klukkan 10 í fyrramálið. Þá verður kaffihúsum, veitingastöðum og verslunarmiðstöðvum lokað. Frá þessu greindi Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á blaðamannafundi í speglasalnum í forsætisráðuneytinu rétt í þessu. Lagði hún áherslu á að bannið gilti bæði innan- og utandyra.

Hárgreiðslustofum, tattústofum og öðrum fyrirtækjum þar sem mikil nánd er milli starfsmanna og viðskiptavina verður einnig lokað. Gerð verður krafa um að allar verslanir, sem áfram verða opnar, tryggi ýtrasta hreinlæti, að gott bil sé milli viðskiptavina og sérhver viðskiptavinur spritti sig við komuna í verslunina.

Bannið gildir til 30. mars hið minnsta.

82 Danir eru nú á spítala smitaðir af kórónuveirunni. Þar af eru 18 á gjörgæslu, en fjöldi þeirra hefur nær fjórfaldast undanfarinn sólarhring. Frederiksen sagði ástandið verða sífellt alvarlegra og að nauðsynlegt væri að rjúfa smitkeðjuna sem fyrst. Hún beindi orðum sínum sérstaklega til ungs fólks. 

„Það má vel vera að þú sért ungur og hraustur, en þú getur engu að síður borið með þér smit til annarra, jafnvel þótt þú hafir engin einkenni. Við verðum öll að hjálpast að við að rjúfa smitkeðjuna,“ sagði forsætisráðherrann.

Vill frekar ganga of langt en skammt

Landamærum Danmerkur var lokað á hádegi á laugardag, en síðan þá hafa 14 önnur Evrópuríki fylgt fordæmi Dana. Ýmsir hafa gagnrýnt þá ákvörðun danskra stjórnvalda, sagt þau of harkaleg og ekki líkleg til að skila árangri, en fyrir liggur að ákvörðun um landamæralokun var ekki tekin að undirlagi heilbrigðisyfirvalda.

Frederiksen kom inn á þetta á fundinum og sagði ríkisstjórnina hafa ákveðið að frekar skyldi gengið of hart fram en of skammt. „Við erum á ókunnum slóðum. Ég hef spurt mig hvort við munum gera einhver mistök, og svarið er klárlega já. En ég vil frekar að við göngum of harkalega fram en öfugt.“

Ríkislögreglustjóri Danmerkur greindi frá því að fleiri lögregluþjónar yrðu á götum úti frá og með morgundeginum. Myndu þeir sjá til þess að samkomubanninu yrði framfylgt auk þess að aðstoða verslanir og fyrirtæki við að fylgja reglum.

Að fundi loknum mun Margrét Þórhildur Danadrottning ávarpa þjóð sína, en það verður í fyrsta sinn frá stríðslokum sem danskur þjóðhöfðingi ávarpar þjóðina sérstaklega á þennan hátt utan árlegs nýársávarps. „Saga konungsfjölskyldunnar verður skrifuð í kvöld,“ sagði fréttamaður danska ríkisútvarpsins að því tilefni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Kórónuveiran

26. maí 2020 kl. 12:57
2
virk
smit
1792
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir