405 þúsund Bretar rétta fram hjálparhönd

Yfirvöld áætla að þörf sé á um 250 þúsund sjálfboðaliðum …
Yfirvöld áætla að þörf sé á um 250 þúsund sjálfboðaliðum á meðan baráttan við kórónuveiruna stendur yfir. 405 þúsund hafa boðið fram aðstoð sína síðasta sólarhringinn. AFP

405 þúsund manns hafa skráð sig sem sjálfboðaliðar í bakvarðasveit breska heilbrigðiskerfisins (NHS) síðasta sólarhringinn. 

Þetta kom fram í máli Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, á blaðamannafundi síðdegis vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Útgöngubann tók gildi í Bretlandi á mánudagskvöld og gildir næstu þrjár vikurnar, eða til 13. apríl. 

Sjálfboðaliðarnir munu meðal annars færa fólki lyf og mat, aka sjúklingum í læknisheimsóknir og fleira. Óskað var eftir sjálfboðaliðum til að létta undir með heilbrigðisstarfsfólki sem er undir gríðarlegu álagi þessa dagana. 

Johnson þakkaði þessi góðu og skjótu viðbrögð. Í hópnum eru margir fyrrverandi starfsmenn heilbrigðiskerfisins og þakkaði Johnson þeim sérstaklega. Yfirvöld áætla að þörf sé á um 250 þúsund sjálfboðaliðum á meðan baráttan við kórónuveiruna stendur yfir. 

8.328 hafa greinst með kórónuveiruna í Bretlandi og 434 látið lífið. 140 hafa náð fullum bata.


mbl.is

Kórónuveiran

6. apríl 2020 kl. 13:00
1562
hafa
smitast
460
hafa
náð sér
38
liggja á
spítala
6
eru
látnir