Sjúklingar fluttir landshorna á milli

Frönsk yfirvöld hafa gripið til þess ráðs að senda fólk sem er veikt af kórónuveirunni á milli landsvæða en yfir 4.600 sjúklingar liggja á gjörgæsludeildum landsins vegna veirunnar. Varað er við því að mun fleiri eigi eftir að veikjast alvarlega í landinu næstu daga.

Tvær sérútbúnar hraðlestir fluttu 36 sjúklinga frá Mulhouse og Nancy á sjúkrahús við vesturströndina en þar hefur ekki verið mikið um smit. Tugir heilbrigðisstarfsmanna tóku þátt í að flytja sjúklingana um borð í lestarvagnana og tók það fleiri klukkutíma.

Þýski herinn tók einnig þátt í sjúkraflutningum og fór með tvo sjúklinga frá Strassborg til Ulm. Um 80 franskir sjúklingar hafa verið fluttir á sjúkrahús í Þýskalandi, Sviss og Lúxemborg að sögn Amélie de Montchalin, sem fer með Evrópumál í frönsku ríkisstjórninni. 

Forsætisráðherra Frakklands, Edouard Philippe, hefur varað við því að ástandið þar í landi eigi eftir að versna enn frekar og vegna alls þess fjölda sem er á gjörgæsludeildum er hætta á að öndunarvélar fari að vera uppurnar.

Unnið er að því að koma upp fleiri gjörgæsludeildum þannig að þau geti hýst 14 þúsund sjúklinga en aðeins fimm þúsund rúm voru á slíkum deildum í lok janúar. 

Á sunnudag var tilkynnt um 292 dauðsföll á sólarhring í Frakklandi og eru þau nú orðin 2.606 talsins. Á laugardag voru tilkynnt 319 dauðsföll í Frakklandi en taka verður tillit til þess að þar er aðeins talað um þá sem látast á sjúkrahúsum ekki annars staðar.

Um sjö þúsund dvalarheimili eru í Frakklandi og er talið að kórónuveiran sé rétt að byrja að geisa á þeim.  Í gær greindi ríkisstjórnin frá því að fimm þúsund hótelrúm yrðu ætluð heimilislausum á meðan farsóttin geisar. 

mbl.is

Kórónuveiran

31. maí 2020 kl. 15:31
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir