884 dauðsföll á einum sólarhring í Bandaríkjunum

Fámennt er á götum New York-borgar.
Fámennt er á götum New York-borgar. AFP

884 dauðsföll af völdum kórónuveirunnar voru staðfest í Bandaríkjunum síðastliðinn sólarhring, en aldrei hafa eins margir látið lífið á einum sólarhring. Alls er tala látinna því komin yfir 5 þúsund. Þetta er meðal þess sem fram kemur í gögnum John Hopkins-spítala.

Meðal þeirra sem létu lífið var sex vikna gamalt barn. Alls eru nú 216 þúsund einstaklingar, svo vitað sé til, með veiruna í Bandaríkjunum. Það er jafnframt hæsta tala smitaðra í heiminum. Athuga verður þó að engin þjóð hefur tekið eins mörg veirupróf og Bandaríkin.

Að því er fram kom í máli Deborah Brix, aðila í viðbragðsliði Hvíta hússins vegna kórónuveirunnar, á blaðamannafundi fyrr í vikunni má ráðgera að á bilinu 100 þúsund til 240 þúsund dauðsföll gætu orðið í Bandaríkjunum sökum veirunnar.

mbl.is