Kanada fari íslensku leiðina

Skimað fyrir COVID-19 í Árbænum. Kanadískur veirufræðingur fjallar um afrek …
Skimað fyrir COVID-19 í Árbænum. Kanadískur veirufræðingur fjallar um afrek Íslands í baráttunni gegn veirunni í kanadísku dagblaði og hvetur Kanada til að fara sömu leið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Raywat Deonandan, dósent við heilbrigðisvísindasvið Háskólans í Ottawa og doktor í faraldsfræðum og líftölfræði, segir að Kanada þurfi að fylgja fordæmi Íslendinga í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn, nema auðvitað á stærri skala.

„Af öllum þjóðum sem eru að glíma við faraldurinn valdi Ísland vísindalegustu nálgunina við skimunina,“ skrifar Deonandan í kanadíska miðilinn Toronto Star. Hann segir frá því hvernig málum er háttað hér á landi, að hér eigi sér stað tvær skimanir samhliða, önnur klínísk á Landspítalanum en hin hjá Íslenskri erfðagreiningu, sem sé að mestu byggð á úrtaki af almenningi og gefi mynd af smiti úti í þjóðfélaginu.

Deonandan útskýrir að skimun gegni tvíþættu hlutverki. Í fyrsta lagi er með henni leitast við að tryggja öryggi sjúklings, enda er sjúkdómsgreining forsenda fyrir réttri lækningu, en í öðru lagi hefur skimunin mikla þýðingu fyrir lýðheilsu þjóðarinnar, þar sem greining er einnig forsenda fyrir rakningu sjúkdómsins og þar með fyrir því að hindra að smitaðir séu áfram úti í samfélaginu. Ef skimað er af miklum krafti má því hægja verulega á útbreiðslu faraldursins, eins og hefur sýnt sig hér á landi.

Ekki aðeins nauðsynlegt að skima þá sem sýna einkenni

Faraldsfræðingurinn leggur til að Kanada efli í fyrsta lagi skimun sína fyrir sjúkdómnum í lækningarskyni, sem hefur verið ábótavant, en ekki síður úrtaksskimunina sem snýr að almannaheill. Þannig ætti jafnt að skima fólk fyrir sjúkdómnum sem sýnir einkenni sem og einnig hópa úr samfélaginu sem væru dregnir út af handahófi, sama hvort þeir hafi einkenni eða ekki.

Eins og Deonandan bendir á er eftirlitskerfi sem koma má upp með skimunum og smitrakningu til þess fallið að minnka þörfina á allsherjarútgöngubanni og öðrum ferðatakmörkunum, því með því má grípa mun fyrr inn í og takmarka ferðir þeirra einstaklinga, sem hafa í raun og veru verið í samskiptum við smitaða, og þá þarf síður að láta eitt yfir alla ganga. Tæknin geri mönnum kleift að hafa samband við fólk nánast í rauntíma og gera því kunnugt að það hafi verið útsett fyrir smiti, bendi rakningin til þess.

Á sama hátt fæst í gegnum svona kerfi nauðsynleg tölfræði. Tölfræðin sem fæst af úrtaksskimunum gefur skýrari mynd af raunverulegri dreifingu veirunnar í samfélaginu, og sú mynd er nauðsynleg fyrir skipulag fram í tímann. Deonandan klykkir út með þeim orðum að leiðin út úr þessu ástandi sé með öflugri stjórnsýslu og gagnaúrvinnslu. Þær auðlindir segir hann ekki af skornum skammti í Kanada.

mbl.is