Portúgalska kraftaverkið

Portúgal hefur náð einstaklega góðum tökum á COVID-19-faraldrinum, að sögn …
Portúgal hefur náð einstaklega góðum tökum á COVID-19-faraldrinum, að sögn Spiegel vegna þess að óttinn er sterkt vopn. AFP

Á meðan Spánverjar (47 milljónir) eru að skríða yfir 150 þúsunda mörkin í staðfestum COVID-19-smitum eru Portúgalar (10 milljónir) ekki með nema 13 þúsund staðfest tilfelli. Þeir hafa náð umtalsvert betri stjórn á veirunni, svo góðri, að Der Spiegel slær upp fyrirsögnum um „portúgalska kraftaverkið“.

Ástæðan fyrir góðum árangri Portúgala er aðallega nástaðan við þennan nágranna þeirra í austri, Spánverja. Þegar landsmenn fengu fréttir af slæmu ástandinu á Spáni í byrjun mars var það óttinn, en ekki opinberar takmarkanir, sem fékk fólk til þess að taka í handbremsuna, ef marka má viðmælendur þýska vikuritsins ofangreinda. Árangurinn sem sú hegðun bar er verulegur: Tífalt fleiri eru smitaðir á Spáni og fjörutíu sinnum fleiri eru látnir af völdum veirunnar, en aðeins um 380 hafa látist í Portúgal.

Sjúkrarúm á bráðabirgðasjúkrahúsi í Lissabon í Portúgal. Lögð var áhersla …
Sjúkrarúm á bráðabirgðasjúkrahúsi í Lissabon í Portúgal. Lögð var áhersla á að hjúkra fólki á heimilum þeirra til þess að hlífa sjúkrahúsum við álagi og smithættu AFP

Portúgal er ekki í alfaraleið þegar litið er til flugumferðar um Evrópu og það er að því leytinu til einangraðra en Spánn, sem á að hafa sagt sitt um þróunina. Þrátt fyrir að vera þannig landfræðilega afskekkt er ferðaþjónustan þó lykilgrein í landinu, og eins og vænta má eru efnahagsleg áhrif veirunnar því meiriháttar. Kórónuveiran hittir skammarlega illa á hjá Portúgölum, sem voru loks að ná sér eftir efnahagshrunið 2008. Þeir voru sumir farnir að tala um að nýtt efnahagsundur væri að gera vart við sig, einkum vegna blómlegrar ferðaþjónustu. Þar fór það.

Sjálfsagi og snemmtæk viðbrögð björguðu þjóðinni þó frá því að sjá heilbrigðiskerfið bresta undan álagi, eins og gerst hefur á Spáni og Ítalíu. Meðal þess sem talið er að hafi hjálpað Portúgölum í þeim efnum er einnig sérstök áhersla þeirra á að hjúkra sjúklingum á heimilum sínum, sem hefur forðað sjúkrahúsunum frá því að verða smitmiðstöðvar, eins og raunin varð á Norður-Ítalíu. Heilbrigðisinnviðir Portúgala hefðu enda ekki ráðið við mikið álag: Þar eru 6,4 gjörgæslupláss á hverja 100.000 íbúa, samanborið við 33,9 slík pláss hjá Þjóðverjum. Á Íslandi voru plássin færri en hjá Portúgölum fyrir faraldurinn, en þeim hefur verið fjölgað meðan á honum stendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina