Trump ánægður að sjá Kim á ný

Donald Trump og Kim Jong-un.
Donald Trump og Kim Jong-un. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að hann sé ánægður með að aftur hafi sést til Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, og að hann virðist vera við góða heilsu.

„Hvað mig varðar, þá er ég ánægður með að sjá að hann sé kominn aftur og heill heilsu,“ skrifaði Trump í færslu sem hann birti á Twitter. En Kim er sagður hafa sést nýverið við opnun nýrrar áburðaverksmiðju í heimalandinu. Þetta er í fyrsta sinn sem leiðtoginn sést opinberlega í þrjár vikur. 

Fjarvera hans, og ekki síst það að hann hafi ekki verið viðstaddur afmælishátíð afa síns sem fór fram 15. apríl, leiddi til talsverðra vangaveltna varðandi heilsufar Kims, að því er segir á vef BBC. 

Norðurkóreska fréttastofan KCNA greindi frá því að Kim hefði klippt á borða þegar umrædd verksmiðja var opnuð á föstudag. Fréttastofan segir ennfremur að fjölmenni hafi verið á staðnum og að fólki hefði fagnað Kim ákaft þegar hann birtist. 

mbl.is