Setja 18 milljarða evra í ferðaþjónustuna

Í Frakklandi eru 95% hótela lokuð vegna COVID-19.
Í Frakklandi eru 95% hótela lokuð vegna COVID-19. AFP

Frakkar hafa ákveðið að setja 18 milljarða evra í aðgerðapakka fyrir ferðaþjónustuna vegna áhrifa kórónuveirunnar á iðnaðinn. 

Forsætisráðherra Frakklands, Edouard Philippe, greindi frá þessu í morgun en að hans sögn er inni í tölunni 1,3 milljarða evra bein fjárfesting hins opinbera í atvinnugreininni. Allt sem veldur erfiðleikum í ferðamannaiðnaðinum hefur slæm áhrif á allt Frakkland, segir Philippe en ferðaþjónustan í Frakklandi er ein sú stærsta í heiminum. 

Í dag eru um 95% allra hótela í Frakklandi lokuð vegna veirunnar en Philippe segir að væntanlega verði hægt að opna kaffihús, bari og veitingastaði að nýju 2. júní. Það er á grænum svæðum en ekki rauðum. Höfuðborgin tilheyrir rauða hlutanum en þar eru eigendur veitingahúsa orðnir óþreyjufullir að bíða eftir breyttum reglum. Öll kaffihús, veitingastaðir og barir hafa verið lokuð frá 15. mars. 

AFP
mbl.is