Stálu upplýsingum um 9 milljónir viðskiptavina

AFP

Brotist var inn í tölvukerfi breska flugfélagsins EasyJet og samkvæmt upplýsingum frá félaginu var stolið upplýsingum um níu milljónir viðskiptavina félagsins.

Samkvæmt upplýsingum frá EasyJet hefur verið lokað fyrir aðgang að tölvukerfum félagsins en þrjótarnir náðu bæði upplýsingum um flugferðir sem og tölvupóstföng viðskiptavina.

Á vef EasyJet kemur fram að gríðarlegt álag sé á símkerfi félagsins og beðist er afsökunar á bið sem viðskiptavinir geti átt von á. EasyJet hefur boðið upp á áætlunarflug til og frá Íslandi í mörg ár og því margir Íslendingar væntanlega meðal viðskiptavina félagsins. 

Í tilkynningu fráEasyJet kemur fram að árásin hafi verið háþróuð og haft verði samband við alla þá viðskiptavini sem upplýsingum var stolið um. Af þeim níu milljónum var kreditkortaupplýsingum um 2.208 viðskiptavina einnig stolið. Búið er að hafa samband við þá alla að því er segir í tilkynningu til kauphallarinnar í London. Haft verður samband við alla aðra á næstu dögum. Er það gert að ráðleggingu frá yfirvöldum þar sem mikil hætta sé á að viðkomandi verði fórnarlömb fjársvikatilrauna. 

AFP

Í tilkynningu EasyJet segir að ekkert bendi til þess að upplýsingarnar hafi verið misnotaðar. Framkvæmdastjóri flugfélagsins, Johan Lundgren, biður alla þá viðskiptavini sem urðu fyrir þessu afsökunar.

Það sé COVID-19 að þakka að fólk er mun varara um sig gagnvart svikum á netinu og notkun persónulegra upplýsinga í þeim tilgangi. Því séu starfsmenn flugfélagsins að hafa samband við alla þá sem urðu fyrir árásinni og þeim ráðlagt að fara sérstaklega varlega ekki síst ef haft er samband við þá óumbeðið.

Frétt Guardian

mbl.is