VW biðst afsökunar á auglýsingu

Forstjóri Volkswagen, Herbert Diess, og stjórnarformaður VW, Hans Dieter Pötsch.
Forstjóri Volkswagen, Herbert Diess, og stjórnarformaður VW, Hans Dieter Pötsch. AFP

Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen baðst í dag afsökunar á auglýsingu sem fyrirtækið birti á Instagram þar sem risastór hvít hönd ýtir svörtum manni til og frá. Auglýsingin vakti mikil viðbrögð og um leið reiði þar sem hún þótti sýna kynþáttahatur.

Myndskeiðið var sett inn á Instagram-síðu VW í gær og var ætlað að kynna nýjan Golf. Búið er að taka myndskeiðið út en það er enn í dreifingu á samfélagsmiðlum.


Í auglýsingunni, sem er 10 sekúndur að lengd, sést hönd hvítrar konu í yfirstærð ýta svörtum manni í jakkafötum inn í hús og í burtu frá gulum Golf sem er lagt við húsið. Áhorfendur voru fljótir að benda á að slagorðið Der neue Golf kæmi þannig út að það minnti helst á nasisma. Aðrir lásu út úr myndmálinu að þar væri verið að vísa til nýlendustefnunnar. 

VW svaraði gagnrýni á Instagram á þann veg að alls ekki væri um kynþáttaníð að ræða enda væri fyrirtækið alfarið á móti rasisma af öllum gerðum sem og útlendingahatri og mismunun.

„Eins og þið getið ímyndað ykkur erum við afar undrandi og brugðið yfir því að saga okkar á Instagram sé misskilin svo hrapalega,“ segir í færslu VW og er þar tekið fram að auglýsingin hafi verið tekin úr birtingu.

Í yfirlýsingu sem gefin var út í dag biður VW afsökunar á myndskeiðinu og verið sé að rannsaka hvað hafi legið að baki. „Án nokkurs efa er myndskeiðið rangt og ósmekklegt.“

mbl.is