Allir sendir í 14 daga sóttkví

AFP

Allir þeir sem koma til Bretlands verða að fara í tveggja vikna sóttkví að sögn ráðherra málefna Norður-Írlands, Brandon Lewis. Hann segir að aðgerðirnar verði kynntar síðar. Ferðamenn sem koma til landsins verða því að gera ráðstafanir sem miða að því en Bretar geta eðlilega verið í sóttkví á heimilinum sínum sagði Lewis í viðtali við Sky. 

Til stendur að þetta komi til framkvæmda í næsta mánuði en aðgerðirnar verða nánar kynntar síðar í dag eftir ríkisstjórnarfund. Að sögn Lewis verður þetta endurskoðað á þriggja vikna fresti. 

Fastlega er gert ráð fyrir ákveðnum undantekningum svo sem fyrir flutningastarfsmenn og heilbrigðisstarfsmenn auk þess sem frjálst flæði fólks verður á milli Bretlands og Írlands.

Talið er að ákvörðunin verði gagnrýnd af ýmsum ekki síst fluggeiranum. Forstjóri Ryanair, Michael O'Leary, sagði fyrr í vikunni að áætlunin um sóttkví væri fáránleg og framkvæmdastjóri sambands flugfélaga í Bretlandi segir að þetta muni að öllum líkindum drepa ferðalög erlendra ferðamanna til Bretlands.

Bretland hefur legið undir ámæli fyrir að senda ekki fólk í sóttkví sem kemur til landsins en ríki eins og Suður-Kórea, Spánn, Bandaríkin og Ísland hafa verið með slíkar reglur í gildi í töluverðan tíma. 

mbl.is