Fangelsaður fyrir falsfrétt

AFP

Ritstjóri hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi í Búrma eftir að fréttastofan sem hann stýrir birti frétt um andlát af völdum kórónuveirunnar en fréttin reyndist síðar vera lygi. Aðeins 199 smit hafa verið staðfest í Búrma og sex andlát en talið er að smitin séu mun fleiri þar sem afar fá sýni hafa verið tekin. 

Aðalritstjóri fréttavefjarins Dae Pyaw, Zaw Ye Htet, var handtekinn sama dag og fréttin birtist, 13. apríl, en þar kom fram að einstaklingur hafi látist í Karen-ríki og allt benti til þess að kórónuveiran hefði dregið hann til dauða.

20. maí hófust réttarhöld yfir honum sem er óvenjustuttur tími frá broti þar sem hefð er fyrir því að sakborningar þurfi að dúsa á bak við lás og slá mánuðum saman áður en réttarhöld hefjast. Að sögn lögmanns ritstjórans, Myint Thuzar Maw, var hann dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir héraðsdómi í Karen-ríki. Dæmt var eftir lagagrein 505(b) en lagagreinin þykir fremur lauslega orðuð. Dómstólar beita henni oft þegar kemur að blaðamönnum og aðgerðasinnum sem eru sakaðir um yfirlýsingar sem eru til þess fallnar að skapa ótta eða viðbúnað í samfélaginu. 

„Við munum áfrýja þessari ósanngjörnu ákvörðun,“ segir eiginkona Zaw Ye Htet, Phyu Phyu Win.

Karen er á landamærum Taílands og snemma í apríl komu yfir 16 þúsund farandverkamenn yfir landamærin til Búrma á sama tíma og fjölmargir misstu vinnuna í Taílandi. Aðeins tvö tilfelli kórónuveiru hafa greinst í Karen og enginn hefur látist af völdum veirunnar. 

Ríkisstjórn Búrma hefur varað við því að fólk sem staðið er að því að dreifa upplýsingaóreiðu um veiruna verði saksótt en þetta er í fyrsta skipti sem blaðamaður er saksóttur vegna þess. 

Phil Robertson, sem er aðstoðarframkvæmdastjóri mannréttindasamtakanna Human Rights Watch í Asíu, segir að þetta sé uppskrift að stórslysi og varar við því að stöðva aðgengi fólks að upplýsingum. 

mbl.is