Stökk úr brennandi flaki og lifði af

Syrgjendur bera líkkistur ástvina sinna sem létust í slysinu.
Syrgjendur bera líkkistur ástvina sinna sem létust í slysinu. AFP

Annar þeirra tveggja sem lifðu af flugslys í Pakistan sem 97 létust í lýsir því hvernig hann stökk úr brennandi flaki flugvélarinnar í upptöku sem gengur nú á samfélagsmiðlum.

„Eftir að flugvélin skall í jörðinni og ég komst aftur til meðvitundar sá ég eld alls staðar en ekkert fólk,“ segir Mohammad Zubair, maðurinn sem komst lífs af þegar flugvélin brotlenti í gær. Hann er 24 ára gamall verkfræðingur.

„Börn, fullorðnir og eldra fólk grétu. Gráturinn var alltumlykjandi og allir voru að reyna að lifa af. Ég losaði öryggisbeltið mitt og sá smá ljós. Ég reyndi að ganga í áttina að því og stökk svo úr flakinu. Ég þurfti að stökkva niður um þrjá metra.“

Zubair hafði brunnið nokkuð illa en ástand hans er stöðugt. 

Bankastjóri lifði einnig af

Hinn maðurinn sem komst lífs af er Zafar Masood, bankastjóri Punjab-banka í Indlandi. Bankinn hefur greint frá því að hann hafi meiðst eitthvað en sé með meðvitund og ástand hans stöðugt. 

Flugvélin var á vegum pak­ist­anska flug­fé­lags­ins Pak­ist­an In­ternati­onal Air­lines og hrapaði þegar hún nálgaðist Karachi-flugvöll. Þá hafði hún áður reynt að lenda, án árangurs. Zubair sagði í fyrrnefndu myndbandi að um tíu mínútum eftir misheppnaða tilraun flugvélarinnar til að lenda tilkynnti flugmaðurinn farþegunum að hann ætlaði að reyna aftur að lenda vélinni sem brotlenti þá þegar hann nálgaðist flugbrautina. 

Borin hafa verið kennsl á að minnsta kosti nítján manns sem týndu lífi í slysinu en unnið er að því að bera kennsl á hina 78 sem létust. Flugvélin brotlenti í íbúðahverfi og sjúkrahús í hverfinu þar sem flugvélin brotlenti hefur einnig greint frá því að einhverjir hafi týnt lífi sem voru á jörðu niðri þegar flugvélin hrapaði. 

Ljósmynd frá vettvangi slyssins þar sem sjá má slökkviliðsmann vinna …
Ljósmynd frá vettvangi slyssins þar sem sjá má slökkviliðsmann vinna að því að ráða niðurlögum eldsins sem kom upp þegar vélin brotlenti. AFP

„Mayday! Mayday! Mayday!

Almennar flugferðir til og frá Pakistan hófust aðeins fyrir nokkrum dögum eftir að hafa legið niðri um tíma vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Nokkrum sekúndum áður en vélin brotlenti sagði flugmaðurinn flugumferðarstjórum að hann hefði misst afl frá báðum vélum. Stuttu síðar kallaði flugmaðurinn: „Mayday! Mayday! Mayday!“

Engin frekari samskipti bárust frá flugvélinni og enn þykir of snemmt að segja til um tildrög flugslyssins.

mbl.is