Rúmur milljarður hefur safnast

AFP

Útför George Floyd fer fram í Houston Texas 9. júní næstkomandi. Alls hafa safnast um 7,6 milljónir Bandaríkjadala, rúmur milljarður króna, í fjáröflun fyrir útfararkostnað, lögfræðiaðstoð og menntun barna Floyd. 

Hörð og blóðug mót­mæli hafa brot­ist út víða um Banda­rík­in á síðust dög­um í kjöl­far dauða Floyd. Fyrr­ver­andi lög­reglumaður­inn Derek Chau­vin hef­ur verið hand­tek­inn, en hann þrengdi að önd­un­ar­vegi Floyd með því að krjúpa á hálsi hans í meira en átta mín­út­ur, með þeim afleiðingum að Floyd kafnaði. 

Á fimmtudag fer fram minningarathöfn í Minneapolis, þar sem Floyd lést. Þá verður haldin minningarathöfn í Norður-Karólínu á laugardag, en Floyd var þaðan. 

Víða verður útgöngubann í kvöld, meðal annars í Minneapolis, Washington DC og New York. 

Chauvin fer fyrir dómara í næstu viku, en fjölskylda Floyd hefur kallað eftir því að þrír aðrir lögreglumenn, sem höfðu aðkomu að handtöku Floyd, verði einnig ákærðir. Þá hefur fjölskyldan sagt að ofbeldi, skemmdarverk og rán á meðal mótmælenda séu óviðunandi. 

Lögreglumaður rekinn

Yfirlögregluþjónn í Kentucky hefur verið rekinn eftir að liðsmenn lögreglu skutu á hóp mótmælenda með þeim afleiðingum að David McAtee, eigandi veitingastaðarins Ya-Ya's BBQ, lést. 

Atvikið átti sér stað í Louisville snemma í morgun. Borgarstjóri Louisville, Greg Fisher, segir að lögreglumennirnir hafi brugðist með því að kveikja ekki á myndavélum á búningum sínum. Slík mistök verði ekki viðgengin og var lögreglustjóri borgarinnar því rekinn. mbl.is