Jarðskjálftarnir í þrívídd

Mismunandi litir á kúlunum tákna hversu langt er liðið frá …
Mismunandi litir á kúlunum tákna hversu langt er liðið frá jarðskjálftunum. Sama litakóðun er notuð og hjá Veðurstofunni. Skjáskot af vefsíðunni

Hægt er að fylgjast með jarðskjálftavirkninni við Reykjanes í þrívídd og rauntíma á vefsíðu sem forritarinn Bæring Gunnar Steinþórsson skrifaði. Þrívíddarkort sem hann gerði af virkni í Bárðarbungu vakti athygli um allan heim og flettingar í því nálgast nú fimmtu milljónina.

Vefurinn byggist á gögnum frá Veðurstofunni og birtir aðeins þá jarðskjálfta sem hafa verið yfirfarnir af jarðskjálftafræðingum hennar. Hann er uppfærður á sextíu sekúndna fresti og því er hægt að fylgjast með virkninni í rauntíma. Á síðunni er því hægt að fylgjast á nýjan og sjónrænan hátt með þeirri jarðskjálftavirkni sem verið hefur á og við Reykjanes undanfarið.

Óhætt er að segja að vefurinn sem Bæring gerði um jarðvirknina í Bárðarbungu í kringum jarðhræringarnar í Holuhrauni hafi slegið í gegn en tæplega milljón manns heimsótti hann á einni viku eftir að hann fór fyrst í loftið.

„Í framhaldi af því bjó ég til þróaðra kort þar sem allt Ísland og jarðskjálftavirknin kemur fram,“ segir Bæring en sú síða er búin að vera til frá því í september.

Kortið er ekki 100% nákvæmt en Bæring notaði þau gögn sem hann gat nálgast opið á netinu. Það sé góð áætlun þannig að fólk getur áttað sig á dýpi jarðskjálftanna nokkurn veginn.

„Maður getur þá séð þetta betur fyrir sér en að sjá bara ofan á kortið í tvívídd hvernig þetta liggur,“ segir hann.

Notuð í fyrirlestrum í Bandaríkjunum

Jarðskjálftasíðan fær um 25.000 heimsóknir á mánuði en upphaflega Bárðarbungusíðan nálgast nú fimm milljónir heimsókna.

„Það er fólk ennþá að fylgjast með henni þó það sé hætt að gjósa. Ég skil það ekki en það er einhver mikill áhugi fyrir því,“ segir Bæring sem bjó vefinn til eftir að gögn um jarðskjálftana voru gerð aðgengileg á síðunni apis.is.

„Það gerðist seint á sunnudagskvöldi að strákur setti á Facebook-grúppu hjá forriturum á Íslandi að hann hefði verið að setja inn nýjan endapunkt, sem kallað er, til að nálgast jarðskjálftagögn frá Veðurstofunni og hvatti alla til að nota þau til að gera eitthvað kúl. Þá geri ég þessa upphaflega síðu og sat við tölvuna til fimm um morguninn. Svo bara á nokkrum dögum varð hún að einhverri geðveiki. Það var mjög skrýtin upplifun fyrir mig að fá í fyrsta skipti einhverja heimsfrægð fyrir eitthvað sem ég gerði á einni nóttu,“ segir Bæring sem starfar hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Aranja.

Greinar voru birtar um síðuna í erlendum fjölmiðlum eins og Business Insider og einn stjórnenda Google skrifaði færslu um vefinn á Google+. Þá segir Bæring að hann hafi fengið svo marga tölvupósta á tímabili vegna vefsins að hann hafi ekki getað svarað þeim öllum. Þar á meðal hafi verið póstar frá háskólaprófessorum í Bandaríkjunum sem vildu þakka honum fyrir vefinn og sögðust hafa notað hann í fyrirlestrum.

Hér má nálgast vefsíðu Bærings með korti af jarðskjálftavirkni á Íslandi

Bæring Gunnar Steinþórsson, vefforritari.
Bæring Gunnar Steinþórsson, vefforritari.
mbl.is