Ólafur talinn slasaður á hrygg og hálsi

Þyrlan var í útsýnisflugi þegar óhappið varð.
Þyrlan var í útsýnisflugi þegar óhappið varð. Árni Sæberg

Ólafur Ólafsson var einn þeirra þriggja sem lagðir voru inn á Landspítalann vegna meiðsla sinna eftir að þyrla, sem hann var í ásamt íslenskum flugmanni og þremur erlendum viðskiptafélögum, brotlenti suður af Nesjavallavirkjun í gærkvöld. Þetta staðfestir Björgvin Guðmundsson, upplýsingafulltrúi Ólafs.

Þrír þeirra sem voru í þyrlunni voru lagðir inn á Landspítalann í gær og eru þeir allir í frekari rannsóknum í dag. Að sögn Guðnýjar  Helgu Herbertsdóttur, upplýsingafulltrúa Landspítalans, voru tveir þeirra sem voru í þyrlunni minna slasaðir og þeim því aðeins haldið inni yfir nótt til eftirlits.

„Þetta var alvarlegt flugatvik þannig að menn eru fyrst og fremst þakklátir fyrir að allir komust lífs af úr slysinu,“ segir Björgvin. Eðlilega séu menn enn í áfalli eftir slysið og frekari rannsóknir í dag muni leiða í ljós hversu alvarleg meiðsl þeirra séu. „Þeir voru undir eftirliti í nótt,“ segir hann. „Það eru líkur á því að Ólafur sé slasaður á hrygg og hálsi, en hann mun vita meira um það eftir daginn.“  

Ólafur og flugmaðurinn voru með erlendu gestina í út­sýn­is­flugi þegar óhappið varð, en ætl­un­in hafði verið að lenda aft­ur í Reykja­vík að því loknu. Ferðin endaði hins veg­ar þegar þyrl­an brot­lenti á Hengils­svæðinu. Viðbragðsaðilum barst til­kynn­ing kl. 19:45 í gær­kvöldi og voru tvær þyrl­ur Land­helg­is­gæsl­unn­ar meðal ann­ars kallaðar út.

mbl.is