Þyrlan flutt af slysstað á næstu dögum

10 – 15 manns hafa unnið að rannsókn á tildrögum …
10 – 15 manns hafa unnið að rannsókn á tildrögum slyssins í gær og dag. Árni Sæberg

Ekki er búið að taka ákvörðun um hvenær flak þyrlu Ólafs Ólafssonar verður flutt af slysstað, að sögn Þorkels Ágústssonar stjórnanda rannsóknarinnar hjá flugsviði Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Þyrlan hrapaði á Hengilssvæðinu í gærkvöld með þeim afleiðingum að allir fimm sem í þyrlunni voru voru fluttir á Landspítalann og hafa þrír þeirra sætt frekari rannsóknum á spítalanum í dag.

Þorkell segir ástæður slyssins ekki ljósar. Rannsókn á tildrögum slyssins er hins vegar í fullum gangi og hafa um 10 – 15 manns unnið í gær og í dag að rannsókn á vettvangi.

Spurður hvenær þyrlan verði flutt af slysstað segir hann það ekki verða í dag. „Ég geri ráð fyrir að það verði á morgun eða hinn,“ segir Þorkell. Aðkoma fyrir bíl að slysstaðnum er hins vegar ekki auðveld að hans sögn. „Það er í undirbúningi með hvaða hætti við munum flytja þyrluna á brott, en ætli hún verði ekki hífð yfir á veg og flutt á brott í bíl.“

mbl.is