Viðskiptafélagar Ólafs í þyrlunni

Frá slysstað á Hengilssvæðinu í gærkvöldi.
Frá slysstað á Hengilssvæðinu í gærkvöldi. mbl.is/Árni Sæberg

Þrír viðskiptafélagar Ólafs Ólafssonar frá Norðurlöndunum og íslenskur flugmaður voru með honum í þyrlunni sem brotlenti suður af Nesjavallavirkjun í gærkvöldi. Í yfirlýsingu frá Ólafi kemur fram að allir hafi sloppið tiltölulega vel frá óhappinu miðað við aðstæður.

Þeir voru í útsýnisflugi fyrir erlendu gestina þegar óhappið varð. Ætlunin hafði verið að lenda aftur í Reykjavík að því loknu. Ferðin endaði hins vegar þegar þyrlan brotlenti á Hengilssvæðinu. Tilkynning barst viðbragðsaðilum kl. 19:45 í gærkvöldi. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru meðal annars kallaðar út.

Fram kom á mbl.is í gærkvöldi að þrír þeirra sem voru um borð í þyrlunni hafi hlotið beinbrot og önnur meiðsl. Þyrlan sé í eigu Ólafs.

Í yfirlýsingu Ólafs sem send var fjölmiðlum í nótt segir annars orðrétt:

„Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var ég farþegi í þyrlu sem lenti í óhappi á Hengilssvæðinu suður af Nesjavallavirkjun fyrr í kvöld. Mikilvægast er að allir sluppu tiltölulega vel frá þessu atviki miðað við aðstæður og fyrir það erum við þakklát. Fyrir hönd okkar vil ég þakka öllum hlutaðeigandi, þar með talið björgunarfólki og starfsfólki Landspítalans, fyrir skjót viðbrögð og faglega umönnun.

Í þyrlunni voru þrír viðskiptafélagar mínir frá Norðurlöndunum og íslenskur flugmaður. Um var að ræða útsýnisflug með erlendu gestina og ætlunin var að lenda aftur í Reykjavík.“

mbl.is