Júlíus Vífill neitaði sök

Júlí­us Víf­ill Ingvars­son í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Júlí­us Víf­ill Ingvars­son í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Valli

Júlí­us Víf­ill Ingvars­son, fyrr­ver­andi borg­ar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins, neitaði sök við þingfestingu peningaþvættismáls gegn honum sem héraðssaksóknari höfðaði. „Ég er saklaus,“ sagði Júlíus þegar dómari óskaði eftir afstöðu hans.

Í þingfestingunni var verjanda Júlíusar gefinn frestur til að kynna sér gögn málsins aðeins nánar, en hann sagði möguleika á að lögð yrðu fram frekari gögn af hálfu varnarinnar.

Eftir að þingfestingu lauk sagði Júlíus í stuttu samtali við fjölmiðla að hann myndi ekki tjá sig nánar um málið að svo stöddu, hann væri hins vegar til í að tala við fjölmiðla nánar þegar málið væri búið. Sagðist hann alveg viss um að hafa sigur í málinu.

Júlíus er ákærður fyr­ir pen­ingaþvætti með því að hafa geymt á erlendum bankareikningi sínum fjár­hæðir að and­virði 131 til 146 millj­ónir króna, sem voru að hluta til ávinn­ing­ur refsi­verðra brota, og ráðstafað þeim á banka­reikn­ing hjá vörslu­sjóðs í Sviss. Í ákæru málsins kemur fram að Júlíus hafi geymt fjármagnið í Bandaríkjadölum, evr­um og sterl­ings­pund­um, á banka­reikn­ingi sín­um hjá bank­an­um UBS á af­l­ands­eyj­unni Jers­ey í Ermar­sundi á ár­un­um 2010 til 2014.

Þá er hann sagður hafa ráðstafað um­rædd­um fjár­mun­um inn á banka­reikn­ing sem til­heyrði vörslu­sjóðnum Silwood Foundati­on í bank­an­um Ju­lius Bär í Sviss. Rétt­haf­ar vörslu­sjóðsins voru Júlí­us, eig­in­kona hans og börn.

Um var að ræða tekj­ur sem hon­um höfðu hlotn­ast nokkr­um árum fyrr en ekki talið fram til skatts. Því greiddi hann ekki tekju­skatt, út­svar eða vexti af fjár­munun­um. Í ákær­unni seg­ir að fjár­hæð hins ólög­mæta ávinn­ings sem Júlí­us kom sér und­an að greiða og vext­ir af því fé hafi verið á bil­inu 49 til 57 millj­ón­ir króna.

Í ákær­unni seg­ir að við rann­sókn máls­ins hafi Júlí­us viður­kennt að fjár­magnið væri tekj­ur sem hann hefði ekki gefið upp til skatts og því ekki greitt af þeim út­svar eða tekju­skatt.

Þar seg­ir þó að Júlí­us neiti að gera nán­ari grein fyr­ir því hvenær tekn­anna var aflað og því sé ekki hægt að finna út ná­kvæm­an ávinn­ing hans.

„Hann hef­ur hins veg­ar ekki viljað segja ná­kvæm­lega til um það hvenær um­ræddra tekna var aflað og því er ekki hægt að segja með full­kom­inni vissu hver ávinn­ing­ur­inn var þar sem hlut­fall tekju­skatts og út­svars af tekju­skatts­stofni var breyti­legt á ár­un­um fyr­ir 2006.“

Júlí­us Víf­ill ásamt verjanda sínum Herði Felix Harðarsyni við þingfestinguna …
Júlí­us Víf­ill ásamt verjanda sínum Herði Felix Harðarsyni við þingfestinguna í dag. mbl.is/Valli
mbl.is