Var í fríi þegar ákvörðunin var tekin

Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings.
Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings. mbl.is/Hari

Guðný Arna Sveinsdóttir, annar sakborninga í innherja- og umboðssvikamáli tengdu einkahlutafélaginu Hreiðari Má Sigurðssyni ehf., sagðist aldrei hafa rætt við Hreiðar Má Sigurðsson, sem einnig er ákærður í málinu, vegna lánveitingarinnar sem deilt er um í málinu. „Held við höfum aldrei talað um hana, hvorki fyrr né síðar," sagði Guðný við skýrslutöku við aðalmeðferð málsins í héraðsdómi í dag. Þá sagðist hún enga ákvörðun hafa tekið um lánveitinguna.

Guðný er fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþingssamsteypunnar og er ákærð fyrir hlutdeild í umboðssvikum með því að hafa veitt liðsinni við að koma fyrirmælum og samskiptum við lægra setta starfsmenn bankans þegar umrætt lán var veitt.

Um er að ræða 574 milljóna króna eingreiðslulán sem veitt var í ágúst 2008, en það var hluti af kaupréttarmálum Hreiðars hjá bankanum. Keypti hann hluti í bankanum samkvæmt kaupréttinum fyrir 246 milljónir og framseldi þau sama dag til einkahlutafélags í hans eigu. Fór sú sala fram á markaðsvirði. Fékk hann einnig lán fyrir skattgreiðslum sem hann þurfti að standa skil á vegna sölunnar til einkahlutafélagsins.

Guðný sagði að hún hefði verið í fríi stóran hluta þess tíma sem málsgögn ná til og því sé ekki líklegt að hún hafi skoðað alla þá pósta sem saksóknari bar undir hana. Sagði hún að um langþráð frí hefði verið að ræða og að Hreiðar hafi meðal annars gefið henni skýr skilaboð um að huga sem minnst að bankanum meðan hún væri í fríi.

Guðný sagði að hennar hlutverk hefði verið bókhald og uppgjör og hún hafi ekki komið að neinni ákvarðanatöku. Slíkt væri á hendi stjórnar félagsins. Vísaði hún á formann starfskjaranefndar stjórnar varðandi hver hefði líklegast tekið ákvörðun um hvernig kaupréttir væru nýttir og lán veitt fyrir þeim kaupum.

Í framhaldi af skýrslutöku yfir Guðnýju komu þrír fyrrverandi starfsmenn bankans og báru vitni. Gekk sú skýrslutaka hratt, en saksóknari spurði meðal annars um tölvupóstsamskipti frá því í ágúst 2008. Var það sammerkt með svörum vitnanna að þau mundu lítið eftir nákvæmum samskiptum frá þessum tíma, enda rúmlega 10 ár síðan.

Eftir hádegishlé halda skýrslutökur yfir vitnum áfram og á morgun fer svo fram málflutningur ákæruvaldsins og verjenda.

mbl.is