Fór fram á aukna refsingu yfir Hreiðari

Hreiðar Már Sigurðsson ásamt verjanda sínum í héraðsdómi.
Hreiðar Már Sigurðsson ásamt verjanda sínum í héraðsdómi. mbl.is/Hari

Saksóknari fór í dag fram á að Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, yrði gerð aukin refsing við þau sjö ár sem hann hefur þegar hlotið í þremur öðrum sakamálum. Fór saksóknari fram á að Hreiðar yrði dæmdur í 12-15 mánaða fangelsi í innherja- og umboðsvikamáli sem tengist einkahlutafélaginu Hreiðari Má Sigurðssyni ehf. Þá fór saksóknari fram á að Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, yrði dæmd í 6-9 mánaða fangelsi vegna hlutdeildar í brotum Hreiðars, en að til greina komi að skilorðsbinda dóminn.

Saksóknari sagði að meint brot Hreiðars væru annars eðlis en í þeim málum sem hann hefur verið sakfelldur hingað til. Í þessu máli væri um persónulega auðgun hans að ræða og það ætti að meta honum til refsiþyngingar. Á móti til mildunar væri langt um liðið síðan brotin væru framin.

Refsihámark fyrir brot af þessu tagi eru 6 ár og því hefur Hreiðar þegar farið upp fyrir refsihámarkið með dómi héraðsdóms í Marple-málinu svokallaða. Áður hafði hann hlotið 5,5 ára dóm í al Thani-málinu og 6 mánaða dóm í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings.

Í málflutningi sínum sagði saksóknari að Hreiðar hefði misnotað aðstöðu sína sem bankastjóri með því að hafa gefið fyrirmæli um viðskipti til handa félaginu Hreiðar Már Sigurðsson ehf. (HMS), sem var í hans eigu og endanlegur eigandi þeirra bréfa sem Hreiðar nýtti sér kauprétt að. Viðskiptin leiddu svo til þess að hann fékk lánað frá bankanum fyrir kaupunum.

Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari vill þyngri refsingu yfir Hreiðar.
Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari vill þyngri refsingu yfir Hreiðar. mbl.is/Hari

Ólíkt því sem áður hafði verið gert, þegar bankinn lánaði fyrir bréfunum á kaupréttargengi, sagði saksóknari að árið 2008, tveimur mánuðum fyrir hrun bankans, hafi Hreiðar selt bréfin til HMS á markaðsvirði, sem var um 320 milljón krónum meira en kaupréttargengið. Samhliða hafi hann fengið lánað frá bankanum vegna markaðsverðs, án þess að stjórn bankans hafi samþykkt lánveitinguna.

Segir saksóknari að með því hafi Hreiðar í raun innleyst hagnað af bréfunum miðað við markaðsverð þeirra þennan dag. Var upphæðin notuð til að greiða skattaskuldbindingar Hreiðars og sagði saksóknari að ekki skipti máli í hvað hagnaðurinn væri notaður. Hafi hann auk þess sem forstjóri bankans vitað að gengi bankans væri of hátt skráð á markaði og nýtt sér það til að innleysa hagnaðinn. Vísaði saksóknari meðal annars í fyrri dóma sem Hreiðar hefur hlotið varðandi markaðsmisnotkun og sagði að Hreiðar hefði haft frekari upplýsingar en aðrir fjárfestar á markaði. Því hefði hann í raun með viðskiptunum nýtt sér innherjaupplýsingar þegar hann ákvað að selja félaginu bréfin og þar með taka út hagnað upp á 320 milljónir. Hefði hann því selt bréfin til HMS og innleyst hagnað á sama tíma og hann vissi að gengi bréfa Kaupþings væri hærra en það ætti að vera.

Við skýrslutöku í gær vísaði vörnin meðal annars til þess að stjórn hafi árið 2005 samþykkt veitingu lána til starfsmanna vegna nýtingu kauprétta þeirra. Þetta hafi í raun verið ígildi samþykktar á framtíðar lánveitingum og því hafi stjórn ekki þurft að staðfesta sérstaklega lánveitinguna til Hreiðars þegar hann óskaði eftir að nýta kaupréttinn árið 2008.

Saksóknari fór fram á 6-9 mánaða dóm yfir Guðnýju Örnu …
Saksóknari fór fram á 6-9 mánaða dóm yfir Guðnýju Örnu Sveinsdóttur. mbl.is/Þorsteinn

Saksóknari sagði þetta hins vegar ekki standast skoðun. Sagði hann að stjórnin hafi árið 2005 aðeins samþykkt stefnu um kauprétti, meðal annars að starfsmenn eigi að fjármagna kaupin hjá bankanum en ekki þriðja aðila. Sagði saksóknari að árin 2005-2007 hefði stjórn samþykkt sérstaklega lánveitingar til Hreiðars og Sigurðar Einarssonar stjórnarformanns þegar þeir nýttu kauprétti sína og að árið 2008 hefði stjórnin einnig átt að samþykkja lánveitingu.

Saksóknari gerði lítið úr skýrslugjöf fjögurra vitna sem mættu fyrir dóminn í gær. Meðal annars var eitt vitnið núverandi héraðsdómari. Sagði saksóknari að dómarinn hafi sem yfirlögfræðingur Kaupþings verið náinn samstarfsmaður Hreiðars um margra ára skeið. Þá véfengdi hann skýrslugjöf fyrrverandi formanns starfskjaranefndar stjórnar bankans sem hann sagði hafa verið með stöðu sakbornings í upphafi málsins og að framburður hans hafi litast af því.

Saksóknari sagði að meint brot Guðnýjar væru alvarlegs eðlis í trúnaðarstarfi og að hún hafi stutt að „verulegu og nauðsynlegu leyti við brot Hreiðars.“  Sagði saksóknari að henni hafi ekki getað dulist að um væri að ræða lánveitingu sem væri annars eðlis en hingað til hefði verið veitt í tengslum við kauprétti. Þá gat henni ekki dulist að tryggingar vegna lánveitingarinnar voru ófullnægjandi og ekki í tengslum við reglur bankans. Þá hafi samskipti hennar í tengslum við afgreiðslu málsins gefið „henni tilefni sem fjármálastjóri til að staldra við.“

Saksóknari tók fram að ekkert hafi komið fram um að brot hennar gætu falið í sér persónulega auðgun. Þá mætti meta ásetningsstig hennar lágt, en að hann teldi hæfilega refsingu engu að síður vera 6-9 mánuðir. Tók hann jafnframt fram að hann teldi koma til greina að skilorðsbinda refsingu hennar.

mbl.is