Aðalmeðferð í máli Júlíusar Vífils

Júlíus Vífill Ingvarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur við þingfestingu málsins í …
Júlíus Vífill Ingvarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur við þingfestingu málsins í september. mbl.is/Valli

Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Júlíusi Vífli Ingvarssyni, fyrrverandi borgarfulltrúa, hefst í héraðsdómi nú á öðrum tímanum í dag. Júlíus er ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa geymt sem nemur á bilinu 131-146 milljónum króna á erlendum bankareikningum, en hluti fjármunanna er sagður ávinningur refsiverðra brota.

Júlíus neitaði sök við þingfestingu málsins í byrjun septembermánaðar. Í ákæru málsins segir að Júlíus hafi viðurkennt að fjármagnið væri tekjur sem hann hefði ekki gefið upp til skatts og því ekki greitt af þeim útsvar né tekjuskatt. Þá hafi hann neitað að gera nánari grein fyrir því hvenær teknanna var aflað. Vegna þess er erfitt að finna nákvæman ávinning hans af meintum brotum, en ákæruvaldið telur ávinning hans á bilinu 49-57 milljónir.

Samkvæmt dagskrá héraðsdóms á aðalmeðferð í málinu að ljúka í dag.

mbl.is