Hafði hótað því að kveikja í húsinu

Hugmyndir um að kveikja í húsinu að Kirkjuvegi höfðu oft …
Hugmyndir um að kveikja í húsinu að Kirkjuvegi höfðu oft verið viðraðar, að sögn vitnis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Konan sem ákærð er fyrir almannahættubrot, með því að hafa látið hjá líða að gera það sem í hennar valdi stóð til þess að vara við eldsvoða sem varð að Kirkjuvegi á Selfossi í fyrra, hafði nokkrum mánuðum áður en bruninn varð hótað því að kveikja í húsinu.

Þetta sagði eitt vitni, vinur mannsins sem ákærður er í málinu, við skýrslutöku fyrir dómi í dag. Sá sagðist þekkja báða ákærðu, sem og þau látnu, og sagði að konan sem ákærð er hefði stöðugt hótað manninum sem ákærður er, ef hann gerði ekki það sem hún bæði hann um. „Það má segja að hann hafi verið í gíslingu á eigin heimili,“ sagði vinurinn, og sagði aðspurður að oftar en einu sinni hefði hann heyrt konuna hóta því að kveikja í húsinu, þó hann segði það hafa verið „meira í djóki en annað“.

Eins og komið hefur fram bjó konan sem ákærð er meira og minna í húsinu sem brann um tíma, og sagði vinurinn að hún hefði stöðugt hótað manninum „með syni sínum“ ef hann gerði ekki það sem hún segði.

Að fara að kaupa eiturlyf

Annað vitni, maður sem þekkti einnig til beggja ákærðu, hafði svipaða sögu að segja. Hann sagði að maðurinn sem ákærður er hefði engu stjórnað á eigin heimili og sagði að konan hefði hótað honum með sonum sínum. 

Sá sagði fyrir dómi í dag að hann hefði örskömmu áður en bruninn varð verið á leið til Guðmundar Brjánssonar, sem lést í brunanum, að kaupa eiturlyf. 

mbl.is