Mun fleiri íbúar verði í grennd við hátíðnileiðir

Nýtt leiðanet Strætó mun leggja aukna áherslu á meiri tíðni …
Nýtt leiðanet Strætó mun leggja aukna áherslu á meiri tíðni og beinni leiðir frekar en að leggja lykkju á leið sína til þess að ná viðkomu í sem flestum hverfum borgarinnar.

Strætó kynnti í gær nýtt leiðanet, sem felur í sér grundvallarbreytingu á því hvernig almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu eru hugsaðar. Breytingin felst í því að leiðanetið færist frá því að vera „þekjandi kerfi“ yfir í svokallað „þátttökukerfi“. Hluti notenda mun þurfa að labba lengra til að ná í næsta strætó, en heilt yfir munu stofnleiðir með hárri ferðatíðni vera í grennd við mun fleiri.

Nýja leiðanetið er enn á hugmyndastigi og hefur Strætó óskað eftir því að notendur láti í sér heyra, skoði nýja leiðanetið á gagnvirku korti og komi þar með ábendingar um hvað betur mætti fara. Þá verða haldnir opnir íbúafundir víða um höfuðborgarsvæðið síðar í mánuðinum þar sem nýja leiðanetið verður kynnt og rætt við íbúa.

Munurinn á þekjandi kerfi og þátttökukerfi er sá að í þekjandi kerfi, eins og meirihluti leiðanetsins er núna, leggja vagnar gjarnan lykkju á leið sína til þess að ná viðkomu í sem flestum hverfum höfuðborgarsvæðisins. Slíku fylgir lengri ferðatími, minni tíðni og farþegar eru ekki eins margir, en í slíku kerfi er þó yfirleitt stutt í næstu biðstöð.

Nýja leiðanetið, eins og hugmyndirnar að því líta út núna, eru undanfari borgarlínu. Stofnleiðirnar verða sjö talsins og líta hugmyndir þannig út í dag að þær verði keyrðar á 7-10 mínútna tíðni. Leiðirnar verða þannig beinni, með örari tíðni, styttri ferðatíma og fleiri farþega. Á móti kemur að farþegar gætu þurft að fara lengri vegalengdir á næstu biðstöð.

Mun fleiri verða þó búsettir í grennd við leiðir með hárri tíðni en í dag, samkvæmt greiningum Strætó. Nýja kerfið felur í sér að nærri 2/3 íbúa á borgarsvæðinu muni búa í innan við 400 metra fjarlægð frá stoppistöð leiðar sem er með a.m.k. 10 mínútna tíðni, en eins og staðan er í dag býr einungis rúmlega 1/4 íbúa á svæðinu í innan við 400 metra radíus við leiðir með þá tíðni.

Gullituðu svæðin á kortinu eru þau svæði þar sem 400 …
Gullituðu svæðin á kortinu eru þau svæði þar sem 400 metrar eða minna verður í næstu stoppistöð leiða með a.m.k. 10 mínútna tíðni. Til vinstri má sjá stöðuna í núverandi kerfi og til hægri sést hvernig staðan yrði, samkvæmt núverandi hugmyndum um nýtt leiðanet. Skýringarmyndir af vef Strætó

Á vef Strætó kemur fram að þetta mat miðist við íbúatölur á höfuðborgarsvæðinu árið 2019, en samkvæmt uppbyggingaráætlunum sveitarfélaganna er gert ráð fyrir að mikill hluti uppbyggingar muni eiga sér stað í grennd við stofnleiðirnar, þannig að útlit sé fyrir að hlutfall fólks sem býr í grennd við stofnleiðir hækki enn frekar.

Grundvallaraðgerð til að breyta ferðavenjum

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður samgöngu- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir að tímamót felist í kynningu þessara nýju hugmynda um leiðanetið. Hún hvetur alla til þess að virða kerfið fyrir sér og senda inn athugasemdir.

„Hugmyndin er þarna að þessar stofnleiðir, sjö talsins, sem byggja á framtíðarlegu borgarlínu, muni keyra á 7-10 mínútna tíðni, sem er auðvitað gríðarlega mikil breyting frá því sem var. Í kerfinu í dag eru 26% íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem búa við slíka þjónustu, en með þessu nýja kerfi eins og það lítur út í dag munu 64% íbúa búa við slíka tíðni. Það er algjör grundvallarbreyting og grundvallaraðgerð til þess að ná fram breyttum ferðavenjum,“ segir Sigurborg Ósk.

mbl.is/Eggert

Fram kemur á vef Strætó að eftir samráðsferlið við almenning, á netinu og á opnum fundum núna í októbermánuði og fram í nóvember, verði tillögum skilað inn til stjórnar Strætó. Unnið verður með þær ábendingar og á næsta ári er ráðgert að prófa nýtt leiðanet í nýju umferðarlíkani höfuðborgarsvæðisins. Að því loknu verður aftur leitað til almennings.

Spurt og svarað um nýtt leiðanet á vef Strætó

Hvað finnst þér um hugmyndir að nýju leiðaneti? mbl.is vill heyra frá notendum Strætó sem hafa kynnt sér hugmyndirnar og heyra hvernig þeir búast við því að þær myndu reynast þeim á daglegum ferðum um höfuðborgarsvæðið. Endilega sendið póst á [email protected]

 
mbl.is