Vilja að ESB-umsóknin verði dregin til baka

Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmenn Flokks fólksins.
Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmenn Flokks fólksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingmenn Flokks fólksins, þau Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristinsson, hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið frá árinu 2009 verði dregin til baka.

Fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni að ákveðin óvissa ríki um það hver staða umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið sé. Komið hafi þannig fram ítrekað hjá sambandinu að Ísland hefði ekki dregið hana til baka.

Þannig sé ekki ljóst hvort Evrópusambandið líti svo á að umsóknin hafi verið dregin til baka eða hvort sambandið hafi einungis fært Ísland af lista yfir umsóknarríki samkvæmt ósk stjórnvalda til málamynda en telji umsóknina enn fullgilda.

Þingsályktun hafi verið samþykkt á sínum tíma um að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið en hins vegar hafi engin þingsályktun verið samþykkt um að draga umsóknina til baka. Tilgangurinn með þingsályktun Flokks fólksins er að tryggja að Ísland dragi umsókn sína um inngöngu í sambandið til baka.

mbl.is