Straumlaust í öllum hreppnum í 37 stundir

Alls var straumlaust í öllum Árneshreppi í 2.227 mínútur á …
Alls var straumlaust í öllum Árneshreppi í 2.227 mínútur á árunum 2015-2017. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Straumlaust var í öllum Árneshreppi á árunum 2015-2017 í 37 klukkustundir og sjö mínútur. Þetta kemur fram í svörum Þórdísar K. Reykjarðar Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Andra Thorssyni um raforkuöryggi á Vestfjarðakjálkanum. 

Spurði Guðmundur Andri hver árlegur fjöldi truflanatilvika og straumleysismínútna í Árneshreppi hafi verið síðastliðin fjögur ár og hvort að ráðherra telji tengingu fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar við flutningsnetið líklega til að hafa áhrif á raforkuöryggi í Árneshreppi?

Í svari ráðherra er listaður niður fjöldi straumleysismínútna eftir mismunandi línum og er hann í heild 2.227 mínútur, eða áðurnefndar 37 klukkustundir.

Þá segir í svörum ráðherra að tengipunktur í Ísafjarðardjúpi opni „á möguleika á tengingu við dreifikerfi Orkubús Vestfjarða. Slík tenging mundi bæta afhendingaröryggið í dreifikerfinu. Bætt afhendingaröryggi frá flutningskerfinu hefur í för með sér aukið afhendingaröryggi til endanlegra notenda undirliggjandi dreifikerfis,“ segir í svarinu.

Guðmundur Andri spurði einnig hvort stækkun Mjólkárvirkjunar sé á dagskrá og segir ráðherra samkvæmt upplýsingum frá Orkubúi Vestfjarða, slíka stækkun ekki vera á dagskrá þó Orkubúið sé með rannsóknarleyfi í gildi varðandi stækkun virkjunarinnar.

„Yrði slík stækkun að veruleika er litið svo á að hún auki raforkuöryggi á Vestfjörðum þar sem áhrif bilana á Vesturlínu að Mjólká yrðu almennt minni. Áhrifin á raforkuöryggi yrðu því jákvæð bæði á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum,“ segir í svarinu.

Vestfirðir meðal forgangssvæða í stefnu stjórnvalda

Spurð hvort að hún sé sammála þeim áherslum Landsnets að það sé forgangsmál að bæta raforkuöryggi á sunnanverðum Vestfjörðum og að slíkt sé gert með hringtengingu Suðurfjarðanna segir Þórdís Kolbrún það stefnu stjórnvalda að treysta skuli flutningskerfið betur, bæta tengingar á lykilsvæðum og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt og að Vestfirðir séu meðal þeirra svæða sem sett séu í forgang í stefnunni.

„Niðurstöður skýrslu Landsnets sýna m.a. að tilkoma aukinnar orkuvinnslu í nágrenni Ísafjarðardjúps og tenging hennar um tengipunktinn í Ísafjarðardjúpi hefur áhrif á öllum afhendingarstöðum á Vestfjörðum,“ segir í svarinu. Afhendingaröryggi raforku sé lakast á sunnanverðum Vestfjörðum þó ýmislegt hafi verið gert til úrbóta hin síðari ár og hafi Landsnet verið með til skoðunar nokkrar útfærslur af hringtengingum milli suður- og norðurhluta Vestfjarða.

Guðmundur Andri spurði þá hvort ráðherra telji fyrirsjáanlegt að Landsnet tengi mögulegar vatnsaflsvirkjanir framtíðar á Ófeigsfjarðarheiði til Ísafjarðar og segir ráðherra ekkert því til fyrirstöðu tæknilega að leggja línu þar um og að tenging úr Djúpi til Ísafjarðar byggi til hring með góða flutningsgetu.

Erfitt sé hins vegar á þessari stundu að segja nokkuð um tímasetningar, kostnað eða nánari útfærslur, enda ekki fyrirséð hvenær af uppbyggingu umræddra virkjunarkosta getur orðið. „Uppbyggingu flutningskerfisins verður þó ætíð hagað í samræmi við stefnu stjórnvalda þar um og að teknu tilliti til tæknilegra takmarkana,“ segir í svari ráðherra

mbl.is