Teiknimyndir fyrir óupplýstan almenning

Í teiknimyndunum fimm sem utanríkisráðuneyti hefur látið framleiða eru sagðar …
Í teiknimyndunum fimm sem utanríkisráðuneyti hefur látið framleiða eru sagðar sögur af Íslendingum sem njóta góðs af EES-samningnum. Skjáskot úr myndbandi utanríkisráðuneytisins

Teiknimyndir um EES-samninginn, sem utanríkisráðuneytið hefur að undanförnu birt á samfélagsmiðlarásum sínum, eru liður í kynningu á samningum í tilefni af því að 25 ár eru liðin frá gildistöku hans. Tilgangur þessarar kynningar er að „stuðla að málefnalegri og uppbyggilegri umræðu um þátttöku Íslands í EES-samstarfinu og ábata bæði almennings og atvinnulífs af þátttökunni.“

Í skriflegu svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is um þessar hressilegu teiknimyndir og ástæðurnar fyrir því að ráðist var í gerð þeirra segir að í skoðanakönnun sem Maskína vann fyrir utanríkisráðuneytið í vor hafi komið fram að þótt meirihluti landsmanna væri hlynntur EES-samstarfinu teldi almenningur sig ekki þekkja nægilega vel til þess.

„Það er því mikilvægt að efla þekkingu á EES-samstarfinu og ábata bæði almennings og atvinnulífs af því, ekki síst þau fjölbreyttu tækifæri sem samningurinn skapar mismunandi þjóðfélagshópum. Í því skyni var ráðist í kynningu á samfélagsmiðlum sem þorri Íslendinga notar daglega, ekki síst ungt fólk,“ segir í svari ráðuneytisins, en einnig hefur verið staðið fyrir málstofum um EES-samstarfið í samstarfi við háskólasamfélagið og hagsmunaaðila og ný upplýsingaveita (ees.is) opnuð á Stjórnarráðsvefnum.

Í svarinu segir einnig að kynningin sé í samræmi við tillögur í skýrslunni „Gengið til góðs“ um bætta framkvæmd EES-samningsins, ríkisstjórnin hafi verið upplýst um kynningaráætlun og efnið unnið í samráði við fagráðuneyti.

Kostnaðurinn rúmar 3,2 milljónir króna

Samkvæmt svari utanríkisráðuneytisins var tilboða leitað til þriggja fyrirtækja um að annast framleiðslu og umsjón með dreifingu myndbandanna. Hugsmiðjan átti lægsta tilboðið, en það hljóðaði upp á 3.217.180 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.

Við það bætist svo dreifingarkostnaðurinn, sem var orðinn 442 þúsund krónur er svar barst frá ráðuneytinu í gær. Myndböndunum hefur verið dreift með keyptum auglýsingum á samfélagsmiðlum á borð við Facebook og Instagram.

„Hugsmiðjunni var falið það hlutverk að hámarka dreifingu en halda kostnaði í lágmarki. Sé horft til birtinga og áhorfs má gera ráð fyrir að um helmingur Íslendinga hafi nú séð eitthvert myndbandanna sem hafa samtals birst tæplega milljón sinnum á samfélagsmiðlum,“ segir í svari ráðuneytisins.

Heimssýn mótmælir framsetningunni

Myndböndin hafa ekki verið óumdeild. Í athugasemdum á Facebook-síðu ráðuneytisins, þar sem myndböndin birtast, lýsa netverjar skoðun sinni. Sumir eru jákvæðir í þeirra garð, en aðrir neikvæðir, eins og gengur og gerist.

Heimssýn, samtök sjálfstæðissinna í Evrópumálum, sendu frá sér yfirlýsingu vegna þessara myndbanda um helgina. Þar eru myndböndin sögð „undarleg“ og segja samtökin að „vafamál“ sé hvort rétt sé að greitt sé úr ríkissjóði fyrir það sem í þeim kemur fram.

„Í myndböndunum er fjallað um margt sem flestir telja jákvætt, svo sem sjúkratryggingar, nám í útlöndum, verslun við önnur Evrópulönd, öryggiskröfur, greiðslumiðlun, vinnuvernd og umhverfismál svo nokkuð sé nefnt.  Ýmist er sagt berum orðum, eða gefið sterklega í skyn, að mál þessi, og fleiri, væru í ólestri ef ekki væri EES-samningur. Flestir sem til þekkja gera sér grein fyrir að engin ástæða er til að ætla að svo væri, en svo virðist sem myndböndunum sé ætlað að ná til þeirra sem þekkja síður til, í því skyni að sannfæra þá um að EES-samningurinn sé upphaf og endir flestra hluta, þó svo ekkert hafi komið fram sem bendi til að svo sé,“ segir í yfirlýsingu Heimssýnar, sem telja myndböndin ekki til þess fallin að vera framlag í skynsamlega umræðu um „raunverulega kosti og galla EES-samningsins og þá valkosti sem við hann kunna að vera.“

mbl.is