Lækka leiguverð vegna Bjargs

Björn Traustason á Húsnæðisþingi í morgun.
Björn Traustason á Húsnæðisþingi í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Innkoma Bjargs íbúðafélags á leigumarkaðinn hefur haft þau áhrif að leigusalar á almennum markaði hafa lækkað leiguverð til þess að halda í leigjendur. Þetta kom fram í máli Björns Traustasonar, framkvæmdastjóra Bjargs íbúðafélags ASÍ og BSRB, á Húsnæðisþingi á Hilton Reykjavík Hótel.

Bjarg er sjálfseignastofnun sem er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði húsnæðisöryggi.

Björn nefndi að leiguverðið sé gríðarleg kjarabót fyrir fólk og að munur á leiguverði hjá Bjargi og því sem gengur og gerist á almennum markaði geti numið tugum þúsunda á mánuði. „Þetta er ein mesta kjarabót sem þeir tekjuminni geta fengið,“ sagði hann.

Fram kom í máli Björns að árið 2015 hefði verið gap á húsnæðismarkaði. Annars var félagslegt húsnæði til staðar og hins vegar almennur markaður. Eftir að lög um almennar íbúðir komu fram árið 2016 var ennþá eitthvað gap til staðar. Þess vegna sagði hann jákvætt að núna liggi fyrir frumvarp á Alþingi um að leiðrétta tekjuviðmið og ná utan um hópinn sem þarf á húsnæði að halda.

Björn Arnar Magnússon frá Brynju sem er hússjóður Öryrkjabandalagins, Helga …
Björn Arnar Magnússon frá Brynju sem er hússjóður Öryrkjabandalagins, Helga Vala Helgadóttir þingmaður og Brynja Þorgeirsdóttir á Húsnæðisþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

903 íbúðir samtals

Stofnframlag sveitarfélaga snýst um að leggja til lóðir fyrir íbúðir félagsins og er Bjargi falið að láta byggja þær. Félagið er í samvinnu við sjö íslensk verktakafyrirtæki.

Fyrsta íbúð Bjargs var afhent í júní síðastliðnum. Staðan í dag er sú að 152 íbúðir hafa verið afhentar leigutökum, 311 íbúðir eru í byggingu og 440 í hönnunarferli. Samtals eru þetta 903 íbúðir að stofnvirði um 28 milljarða króna.

Bjarg hefur gert viljayfirlýsingar við sveitarfélög um stofnframlög og lóðir vegna 1.300 íbúða en alls eru um annað þúsund manns á biðlista.

Á næstu vikum verður opnað fyrir umsóknir um íbúðir sem verða afhentar á næsta ári í Úlfarsárdal, Kirkjusandi, Hraunbæ og á Akureyri.

Nanna Hermannsdóttir flutti erindi á Húsnæðisþingi.
Nanna Hermannsdóttir flutti erindi á Húsnæðisþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is