„Þolinmæði hjúkrunarfræðinga er á þrotum“

Hjúkrunarráð segir að auknar tafir á kjarasamningum séu „einungis til …
Hjúkrunarráð segir að auknar tafir á kjarasamningum séu „einungis til þess fallnar að skapa enn meiri atgervisflótta úr stéttinni með tilheyrandi ógn við öryggi sjúklinga.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjúkrunarráð Landspítala hefur sent frá sér ályktun, þar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið og Samninganefnd ríkisins (SNR) eru minnt á „þann mikla vanda sem hefur skapast í íslensku heilbrigðiskerfi vegna skorts á hjúkrunarfræðingum.“ Gerðardómur var settur á kjaradeilu hjúkrunarfræðinga við ríkið árið 2015, en féll úr gildi í lok mars á þessu ári.

Síðan hófust samningaviðræður SNR og Félags íslenska hjúkrunarfræðinga og lítið hefur frést af þeim „annað en að þær ganga hægt,“ segir í ályktun hjúkrunarráðs, sem segir nauðsynlegt að leggja vinnu í að laða hjúkrunarfræðinga til starfa. Lykilatriði sé að bæta laun og kjör hjúkrunarfræðinga, sem séu lakari en sambærilegra stétta.

Hjúkrunarráð segir einnig að auknar tafir á kjarasamningum séu „einungis til þess fallnar að skapa enn meiri atgervisflótta úr stéttinni með tilheyrandi ógn við öryggi sjúklinga.“

Hjúkrunarráð segir að vandinn sé vel sýnilegur á bráðamóttöku Landspítala, þar sem skilgreind pláss fyrir bráðasjúklinga eru 36 talsins, en um 100 einstaklingar leiti þangað á sólarhring. Þar bíði á hverjum degi 20-40 sjúklingar eftir innlögn á legudeildir Landspítala, en á legudeildum eru að minnsta kosti 34 legurými lokuð vegna skorts á hjúkrunarfræðingum.

Marta Jónsdóttir, formaður hjúkrunarráðs Landspítala, ritar undir ályktunina, sem samþykkt …
Marta Jónsdóttir, formaður hjúkrunarráðs Landspítala, ritar undir ályktunina, sem samþykkt var í dag. Ljósmynd/Aðsend

Ályktun hjúkrunarráðs í heild sinni:

„Árið 2015 var settur gerðardómur á kjaradeilu hjúkrunarfræðinga. Þann 31. mars 2019 féll hann úr gildi. Síðan hafa samningar staðið yfir milli Samninganefndar ríkisins (SNR) og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Lítið hefur frést af samningaviðræðum annað en að þær ganga hægt.

Hjúkrunarráð minnir fjármála- og efnahagsráðuneyti og SNR á þann mikla vanda sem hefur skapast í íslensku heilbrigðiskerfi vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Vandinn er til dæmis vel sýnilegur á bráðamóttöku Landspítala. Þar eru skilgreind pláss fyrir 36 bráðasjúklinga en þangað leita um 100 einstaklingar á sólarhring. Á hverjum degi bíða 20-40 sjúklingar á bráðamóttöku eftir innlögn á legudeild Landspítala, en á legudeildum eru að minnsta kosti 34 legurými lokuð vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Þess má einnig geta að vegna skorts á hjúkrunarfræðingum hefur gjörgæslurýmum á Landspítala fækkað um nær helming undanfarin áratug, því fylgir öryggisógn og takmörkun á þjónustu. Skortur á hjúkrunarfræðingum veldur auk þess verulega skertri þjónustu víða annars staðar.

Nauðsynlegt er að leggja vinnu í að laða hjúkrunarfræðinga til starfa. Laun og kjör hjúkrunarfræðinga eru lakari en sambærilegra stétta og lykilatriði að bæta úr því. Auknar tafir á kjarasamningum eru einungis til þess fallnar að skapa enn meiri atgervisflótta úr stéttinni með tilheyrandi ógn við öryggi sjúklinga. Fullnægjandi mönnun er forsenda þess að hægt sé að veita viðunandi þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Hjúkrunarráð beinir því til samningsaðila að sýna vilja í verki og ganga til samninga við hjúkrunarfræðinga sem fyrst.

Þolinmæði hjúkrunarfræðinga er á þrotum.

Fyrir hönd hjúkrunarráðs Landspítala
Marta Jónsdóttir
Formaður“

mbl.is