Forsetakjör 27. júní ef fleiri bjóða sig fram

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og frú í heimsókn í …
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og frú í heimsókn í Ólafsvík

Guðni Th. Jóhannesson hefur ákveðið að gefa kost á sér til endurkjörs sem forseti Íslands, en kjörtímabili hans lýkur 31. júlí næstkomandi. Tilkynnti hann þetta í nýársávarpi forseta í gær. Ef fleiri bjóða sig fram verða forsetakosningar laugardaginn 27. júní. Annars verður Guðni settur inn í embætti án kosninga.

Guðni var kjörinn forseti á árinu 2016, en fimmta kjörtímabil Ólafs Ragnars Grímssonar rann út 31. júlí það ár. „Rúmlega þrjú ár eru að baki, viðburðarík og minnisstæð. Hvað tekur við? Því ræður auðna en segja má tímabært og tilhlýðilegt að lýsa því nú yfir að ég hyggst gefa kost á mér til frekari setu hér á Bessastöðum,“ sagði Guðni meðal annars í áramótaávarpi sínu og bætti við: „Í þessum efnum er ákvörðun aldrei sjálfsögð. Hana hlýtur maður að taka að vel athuguðu máli, í ljósi fenginnar reynslu, í samráði við sína nánustu.“

Guðni tilkynnir framboð sitt fyrr en margir fyrirrennarar hans hafa gert. Ólafur Ragnar tilkynnti gjarnan um framboð í mars. „... [E]n flest er breytingum háð í heimi hér. Þeir sem sinna þessu embætti móta það eftir eigin óskum og tíðaranda, með hliðsjón af venju og hefð, og innan þess ramma sem stjórnskipun leyfir,“ sagði Guðni þegar hann útskýrði ákvörðun sína. Hann nefndi einnig í þessu sambandi að hugmyndir væru uppi í stjórnarskrárnefnd um að takmarka hversu lengi menn mættu vera á forsetastóli og um aðrar breytingar á ákvæðum stjórnarskrár um völd og verksvið þjóðhöfðingjans. Því fagnaði hann.

Ekki náðist í Guðna í gær til að spyrja nánar út í ákvörðun hans.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »