„Eitthvað stórt að“ í húsnæði Fossvogsskóla

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Þrátt fyrir að skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar hafi verið gert viðvart um leka í húsnæði Fossvogsskóla strax í desember hefur málið ekki enn ratað á borð skóla- og frístundanefndar. Þetta segir Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. 

Hún segir brýnt að ráðist verði í myglupróf í skólanum og gert við húsnæðið eins og skot. Valgerður telur að fyrst og fremst sé það borgin sem er ábyrg fyrir lekanum sem leiddi af sér rakaskemmdir. Það hafi komið sér á óvart að rakaskemmdir kæmu aftur upp í skólanum, ekki nema tæpu ári eftir að hann var rýmdur vegna rakaskemmda og myglu. 

„Ég var eiginlega viss um að það yrði rosalega vel fylgst með þessu og það yrði sérstaklega passað upp á úttekt þegar verkið væri búið og skólinn aftur tekinn í notkun. Það hefur ekki verið gert miðað við það að það fer aftur að leka. Það er eitthvað stórt að þarna. Það er náttúrlega ekki í lagi að nýtt þak leki,“ segir Valgerður. 

Vill að úttekt verði gerð á öllu skólahúsnæði

Hún hefur fylgst grannt með gangi mála síðan rakaskemmdir komu fyrst upp á síðasta skólaári. Var þá ráðist í umfangsmiklar lag­fær­ing­ar á öll­um þrem­ur álm­um skól­ans. Vegna þeirr­ar vinnu var á fjórða hundrað nem­end­um skól­ans kennt ann­ars staðar, en nemendur sneru aftur í skólann í haust.

Valgerður situr í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar en einn fundur hefur verið haldinn þar eftir jól. 

„Okkur var ekki tilkynnt þetta þar þrátt fyrir að lekinn hefði komið upp í desember. Ég frétti þetta í raun bara vegna þess að foreldrar fara að senda mér myndir og láta mig vita af því að þetta sé komið upp. Ég veit að búið var að gera skóla- og frístundasviði viðvart strax í desember en það er fundur næsta þriðjudag. Ég mun klárlega taka þetta upp þar og ég vil náttúrlega að það sé skerpt á öllum verklagsreglum þegar við erum að taka við húsnæði.“

Það var mikið grettistak fyrir móður barns í skólanum að fá rannsókn á rakaskemmdum í húsnæði skólans á sínum tíma. Aðspurð segir Valgerður að mikilvægt sé að rannsaka hvort mygla leynist í fleiri skólum borgarinnar.

„Ég vil að það verði farið í gagngera úttekt á öllu skólahúsnæði sem Reykjavíkurborg á.“

Í sumar var ráðist í miklar viðgerðir á þaki Fossvogsskóla. …
Í sumar var ráðist í miklar viðgerðir á þaki Fossvogsskóla. Nú hefur lekið í gegnum þakglugga. mbl.is/Hallur Már

Ítarleg myglupróf nauðsynleg

Í þessu tiltekna máli þarf þó að bregðast við strax, að sögn Valgerðar. 

„Í þessu máli er augljóst að það þarf að gera við þetta eins og skot og svo þurfa að fara aftur fram myglupróf í skólanum. Myglupróf voru gerð í skólanum sem komu vel út en svo voru ítarlegri próf gerð og þá kom vandinn í ljós. Það eru þannig próf sem þarf að fara í aftur.“

Valgerður telur borgina bera ábyrgð á ástandinu en lekinn kom upp vegna hönnunargalla á þakglugga, eins og fram kom í frétt mbl.is fyrr í dag. 

„Fyrst og fremst er borgin ábyrg í þessu máli. Ef borgin er að láta taka byggingar í gegn frá A-Ö eigum við náttúrlega ekki að taka við þeim fyrr en það er búið að tryggja það að allt sé eins og það á að vera.“

mbl.is