Foreldrar barna í Fossvogsskóla ýmsu vanir

Ráðist var í víðtækar endurbætur á skólanum nýverið.
Ráðist var í víðtækar endurbætur á skólanum nýverið. mbl.is/Eggert

Það er „afskaplega óheppilegt“ að rakaskemmdir hafi aftur komið upp í Fossvogsskóla, tæpu ári eftir að skólinn var rýmdur vegna myglu, að sögn formanns foreldrafélags Fossvogsskóla sem segir foreldra barna í skólanum orðna ýmsu vana. 

Hann hefur heyrt af því að börn séu aftur farin að veikjast í skólanum og einkennum þeirra veikinda svipi mjög til þeirra veikinda sem komu upp vegna fyrri myglu í skólanum. Lekinn sem olli rakaskemmdunum kom til vegna hönnunargalla á þakgluggum.

Fulltrúar foreldra barna í skólanum funduðu með borgarstarfsmönnum í gær vegna málsins. 

„Þar lýstu borgarstarfsmennirnir því yfir að þeir ætluðu að taka þetta föstum tökum. Við viðruðum okkar áhyggjur og sögðumst treysta því að þeir myndu ganga frá þessu með sómasamlegum hætti. Þeir settu upp svona bráðabirgðadrög að plani sem við erum sátt við og fylgjum eftir að verði framfylgt. Hlutirnir virðast vera í þeim farvegi að þeim verði sinnt sem við erum óskaplega fegin með,“ segir Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla. 

Hönnunargalli á þakglugga orsökin

Á síðasta skóla­ári var greint frá myglu­skemmd­um á skóla­hús­næðinu og þurfti að fara í víðtæk­ar lag­fær­ing­ar á öll­um þrem­ur álm­um skól­ans. Vegna þeirr­ar vinnu var á fjórða hundrað nem­endum skólans kennt annars staðar. 

Allir nemendur Fossvogsskóla sneru svo aftur í húsnæði skólans í haust en í gær var greint frá því að aftur væru komnar upp rakaskemmdir í húsnæðinu. Lekið hafði með þak­glugg­um í svo­kallaðri Vest­ur­lands­bygg­ingu skól­ans, sem voru end­ur­nýjaðir í haust. Lekinn hefur nú þegar valdið sjá­an­leg­um skemmd­um á innra byrði þaks­ins.

Spurður hvort það hafi ekki verið áfall að aftur hefðu komið upp rakaskemmdir í skólanum segir Karl:

„Það kom náttúrulega verulega á óvart en við höfum fengið skýringar á því. Lekinn kom til vegna hönnunar á þakgluggunum. Þetta virðist vera þekkt vandamál í viðgerðum. Það er ekki um að ræða alltumlykjandi vandamál með þakið.“

Svæðið verður rýmt

Því er um að ræða hönnunargalla á nýju þaki. „Ég hef fulla trú á því að þeir nái að vinna á þessu en það er afskaplega óheppilegt að þetta skuli eiga sér stað með þessum hætti í ljósi þessa langa ferils sem málið hefur verið í,“ segir Karl.

Svæðið þar sem lekinn kom upp verður rýmt en ekki skólinn í heild. „Við erum orðin ýmsu vön þarna niður frá. Búin að flytja oft,“ segir Karl.

mbl.is