Hraun gæti komið úr kílómetralöngum sprungum

Landris hefur mælst vegna kvikusöfnunar vestan við fjallið Þorbjörn við …
Landris hefur mælst vegna kvikusöfnunar vestan við fjallið Þorbjörn við Grindavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Færi að gjósa vestan við fjallið Þorbjörn á Reykjanesskaganum þar sem landris hefur mælst óvenjuhratt undanfarna daga yrði gosið svokallað hraungos eða flæðigos, svipað því sem varð í Kröflu. Þetta segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Óvissu­stigi al­manna­varna hef­ur verið lýst yfir vegna ástands­ins, en um er að ræða hraðasta landris síðan mæl­ing­ar hóf­ust. Land hef­ur risið um tvo sentimetra frá 21. janú­ar og hafa skjálft­ar sömu­leiðis verið tíðir á svæðinu.

„Ef til goss kæmi þá er líklegasta sviðsmyndin að kvikan myndi fyrst finna sér farveg neðanjarðar eftir kílómetralöngum sprungum sem liggja til norðausturs og suðvesturs eins og fyrri gossprungur á svæðinu,“ útskýrir Kristín og bætir við:

„Það eru þekktir sprungusveimar á Reykjanesskaga og kvikan myndi líklegast renna þannig fyrst að mestu lárétt og koma síðar upp. Hættan er þá bæði hraunið sjálft sem kemur upp, þá myndast í raun eldveggir þar sem hraun spýtist upp eftir gossprungunni og hraunið rennur til beggja hliða, en líka gliðnun sem getur átt sér stað á sprungunum.“

Kristín segir að slík gliðnun geti gengið í gegnum vegi, hús og valdið tjóni á raforkulínum og fleiru. Þekktar gossprungur á svæðinu eru frá einum og upp í tíu kílómetra langar og gæti svæðið sem slík gliðnun myndi hafa áhrif á því orðið nokkuð stórt.

Rýming yrði vonandi með nokkurra daga fyrirvara

Spurð hvað þurfi að gerast svo gripið verði til rýmingar í byggð í nágrenni við svæðið þar sem landris hefur mælst segir Kristín erfitt að segja til um það miðað við núverandi stöðu.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri vöktunar og náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands.
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri vöktunar og náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands. ljósmynd/Veðurstofa Íslands

„Á meðan þetta er svona stöðugt þarna þá sér maður enga beina ástæðu til að gera það en um leið og við færum að sjá merki um að kvikan væri eitthvað farin að færast frá þessum stað þar sem hún er núna og ég tala nú ekki um í átt að byggð þá myndi maður vilja grípa til aðgerða.“

En hvað yrði það þá með löngum fyrirvara?

„Þetta vitum við ekki en vonandi yrðu það einhverjir dagar,“ segir Krístin og bætir því við að það komi betur í ljós eftir því sem frekari gögn berist.

Líklegast að ekkert gerist

„Það eru í rauninni litlar líkur á því að þetta endi með gosi en það er bara svo mikið í húfi að það þarf að gera ráð fyrir því að það gæti gerst og viðbragðsaðilar vilja alltaf skoða verstu sviðsmyndina. Ef það færi að gjósa þarna þá væri líklega Vestmannaeyjagosið sambærilegasti atburðurinn sem vöktunar- og viðbragðsaðilar hafa staðið frammi fyrir,“ bætir hún við að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina