Hópárás í miðborginni

Tilkynnt var um líkamsárás í miðborg Reykjavíkur um hálfellefuleytið í gærkvöldið eftir að hópur manna réðst á einn og veitti honum áverka.

Ekki er frekar vitað um meiðsli en málið er í rannsókn, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Laust fyrir klukkan sex í gærkvöldi var tilkynnt um innbrot í fjölbýlishús í hverfi 105. Brotist hafði verið inn í fjórar geymslur og reiðhjólum meðal annars stolið.

Tilkynnt var um ofurölvi konu í miðborginni skömmu fyrir miðnætti. Ekki náðist að koma henni heim og var hún því vistuð sökum ástands í fangageymslu.,

Um hálfþrjúleytið í nótt var óskað eftir aðstoð lögreglu við að vísa ölvuðum manni út af hóteli í miðborginni. Hann var ekki gestur á hótelinu og neitaði hann að fara að fyrirmælum lögreglu er hún kom á staðinn. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Klukkan sjö í gærkvöldi voru höfð afskipti af pari í Hafnarfirði vegna ágreinings á heimilinu. Er lögreglan kom á staðinn framvísaði maðurinn ætluðum fíkniefnum.

mbl.is