Á ekki von á viðsnúningi

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér fannst íslenska ríkið halda frammi mjög kröftugum, málefnalegum og rökföstum málflutningi,“ segir Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem stödd var í dómsal í Mannréttindadómstól Evrópu í dag, þar sem yfirdeild dómstólsins tók fyrir Landsréttarmálið svokallaða.

Sigríður segir íslenska ríkið hafa fengið breskan lögmann til þess að flytja málið, sem hafi yfirgripsmikla þekkingu á þessu réttarsviði og mikla reynslu af málflutningi fyrir Mannréttindadómstólnum. „Ég held það skipti mjög miklu máli, og hann gat svarað, án nokkurra málalenginga, öllum þeim spurningum sem var beint til íslenska ríkisins, og jafnvel fleiri spurningum en beint var til hans. Það var allt saman mjög sannfærandi og eflaust upplýsandi fyrir marga sem þekkja málið kannski ekki eins vel og ég að fylgjast með þessum málflutningi.“

Reyndi að skapa andrúmsloft spillingar á Íslandi

„Ef það var eitthvað sem kom mér á óvart þá var það hvað lögmaður kæranda í þessu máli var staðfastur í sínum meinlokum, að halda sig við þennan málflutning að reyna að skapa eitthvert andrúmsloft spillingar [á Íslandi] og pólitískt skítkast í minn garð og jafnvel embættisdómara á Íslandi. Hann hélt því til streitu í málflutningnum, svo það var lítil lögfræði af þeirri hliðinni.“

Landsréttarmálið var tekið fyrir í yfirdeild MDE í dag.
Landsréttarmálið var tekið fyrir í yfirdeild MDE í dag. mbl.is/Hallur Már

Sigríður segist aldrei hafa átt von á því að yfirdómstóllinn sneri niðurstöðu undirdómsins. „Ég hef aldrei átt von á því bara í ljósi þess hvernig þessi dómstóll er saman settur og ég hef náttúrulega haldið því fram að þetta er auðvitað ekki eiginlegur dómstóll, í þeim skilningi að dómararnir sjálfir semja ekki dómana.“

Samræmist ekki reglum um réttláta málsmeðferð

Þá komi það spánskt fyrir sjónir, og samræmist ekki reglum um réttláta málsmeðferð, að sami dómari sitji í áfrýjuðu máli, og á Sigríður þar við íslenska dómarann Róbert Spanó, sem dæmdi einnig í málinu fyrir undirréttinum. Sigríður segir augljóst að hann hafi sína niðurstöðu að verja í þessu máli.

„Því miður þá hef ég haft það á tilfinningunni allt frá upphafi að þetta sé pólitískt at. Þess vegna hef ég því miður ekki mikla trú á að þarna fari fram málefnaleg umræða, til dæmis um þær réttarreglur sem gilda á Íslandi, og að menn muni ekki virða þá nálægðarreglu sem Mannréttindadómstóllinn sjálfur gengur út frá, sem gengur út á það að það sé í höndum innlendra dómstóla að túlka innlendar réttarreglur.“

„Ég myndi fagna því auðvitað mjög [að niðurstöðunni yrði snúið] og held það væri dómstólnum til sóma að komast að annarri niðurstöðu en undirrétturinn. Það gæti kannski orðið til þess að styrkja trú einhverra á þessari starfsemi þarna fer fram í Strassborg.“

mbl.is