Ekki boðlegt að senda fólk til Grikklands

Flóttafólk sem var verið að fara með frá Lesbos til …
Flóttafólk sem var verið að fara með frá Lesbos til Aþenu fyrir áramót. AFP

Rauði krossinn áréttar í fréttatilkynningu fyrri afstöðu sína um að ekki sé boðlegt að senda flóttafólk aftur til Grikklands.

„Þeirri afstöðu hefur verið komið skýrt á framfæri við Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála, á fundi síðastliðið sumar með dómsmálaráðherra og í opinberri umræðu.

Þá er það skýrt af hálfu Rauða krossins að ekki þurfi lagabreytinga við til að breyta núverandi framkvæmd að senda flóttafólk sem hlotið hefur alþjóðlega vernd í Grikklandi til baka enda hafa bæði Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála fallist á að taka slíkar umsóknir til efnismeðferðar.

Í þessu samhengi er vísað til fyrri ákvörðunar hérlendra stjórnvalda um að hætta endursendingum umsækjenda um alþjóðlega vernd til Grikklands árið 2010. Rauði krossinn ítrekar þá afstöðu sína að aðstæður þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi séu sambærilegar eða verri en þeirra sem bíða afgreiðslu umsóknar sinnar þar í landi,“ segir í fréttatilkynningu frá Rauða krossi Íslands.

mbl.is