„Áfallið kemur oft eftir á“

Rauði krossinn veitti áfallahjálp.
Rauði krossinn veitti áfallahjálp. Ljósmynd/Aðsend

„Fólkinu var mjög brugðið og það var skelkað. Það kom hvellur sem líktist sprengingu við lendingu. Miðað við alvarleika málsins voru farþegar í frekar góðu jafnvægi. Það var mjög vel að öllu staðið bæði hjá Isavia, Icelandair og öllum þeim sem komu að málum,“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Rauða krossins. 

Áfallateymi og viðbragðshópur Rauða krossins var virkjað þegar hjóla­búnaður brotnaði und­an vél Icelandair við lendingu fyrr í dag. Vélin var á leið frá Berlín í Þýskalandi til Íslands. Öllum farþegum var boðin áfallahjálp þegar þeir komu úr vélinni og þeir jafnframt hvattir til að hafa samband í síma 1717 ef vanlíðan gerir vart við sig á næstu dögum. 

Um 160 farþegar voru um borð í vélinni og fór um helmingur farþega áfram í annað flug. 

„Við hvetjum fólk til að hafa samband ef það læðist aftan að fólki einhver vanlíðan. Við metum það um helgina eftir símtölin hvort við þurfum að hitta fólk frekar. Það skýrist,“ segir Kristín. Ekki voru margir sem þáðu frekari aðstoð áfallateymis Rauða krossins á flugvellinum enda eflaust margir sem kusu að komast beint heim til sín á þessari stundu, að sögn Kristínar. 

„Áfallið kemur oft eftir á. Fólk hugsar gjarnan ef og hefði. En teymin eru tilbúin að aðstoða fólk áfram,“ ítrekar Kristín. 

Sími Rauða krossins er sem fyrr segir 1717 fyrir farþega sem þurfa á áfallahjálp að halda. 

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastóri Rauða kross Íslands.
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastóri Rauða kross Íslands.
mbl.is