Aurskriða féll á skógrækt

Skriðan féll á milli klukkan 11 og 12 í dag.
Skriðan féll á milli klukkan 11 og 12 í dag. Ljósmynd/Hjálmar Ólafsson

Aurskriða féll við bæinn Forsæludal inn af Vatnsdal fyrr í dag. Miklar leysingar hafa verið á svæðinu undanfarna daga með tilheyrandi vatnavöxtum. 

RÚV greindi fyrst frá skriðunni sem mun vera um 50 metrar að breidd þar sem hún stöðvaðist og líklega 2—3 metra djúp þar sem mest er. 

Þóra Margrét Lúthersdóttir bóndi segir skriðuna hafa fallið á milli klukkan 11 og 12 í morgun. Hún segist ekki hafa orðið vör við það þegar skriðan féll. 

„Það er búið að vera mikið af leysingum og hlýindi svo það hafa verið bara linnulausar drunur. Það er stór á fyrir neðan okkur sem er búin að vera að ryðja klökum og allir lækir fullir af vatni þannig það er mikið af umhverfishljóðum í kringum okkur,“ segir Þóra. 

„Ég tek bara eftir þessu þegar ég lít bara út um gluggann. Það féll lítil skriða í gær, töluvert mikið minni en þessi. Við fórum út og kíktum á hana úr fjarlægð og þá var ekki að sjá að landið væri að springa fram eða neitt slíkt. Þetta hefur gerst bara einn, tveir og þrír.“

Þóra segir að enn hafi ekki gefist tækifæri til að meta það tjón sem varð af skriðunni. 

„Skriðan fer af stað efst í 23 hektara skógræktarreit þannig ætli það sé ekki hektari af trjám sem fer bara í burtu. Síðan fór þetta yfir tvær girðingar og inn á tvö tún hjá okkur. En miðað við hvernig þetta er núna fannst okkur ekki gáfulegt að fara of nálægt þessu svæði ef það skyldi vera eitthvað meira í gangi. Við ætlum að bíða fram yfir helgina með að skoða þetta betur.“

mbl.is