Björgunarsveitir kallaðar út

Landsbjörg að störfum
Landsbjörg að störfum

Um fimmleytið í dag voru björgunarsveitir frá Laugarvatni, Flúðum og Selfossi kallaðar út vegna manns sem hafði dottið í eða ofan í gil rétt vestan við Geysi. Talið er að maðurinn sé fótbrotinn eftir fallið. Setja þarf upp fjallabjörgunarkerfi til að hífa manninn upp þar sem bratt er og afar hált á staðnum auk þess sem þarf að bera viðkomandi einhvern spotta að sjúkrabíl. Um 14 björgunarmenn sinna verkefninu.

Á næstum sömu mínútu var björgunarsveitin Hafliði á Þórshöfn kölluð út vegna tveggja vélsleðamanna sem eru í vandræðum á Hvammsheiði. Svo virðist sem báðir sleðar mannanna hafi bilað og þeir því strandaglópar á heiðinni allnokkuð fjarri byggð. Munu björgunarmenn sækja þá og koma þeim til byggða.

mbl.is